Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Í starfi mínu undanfarna tvo áratugi hef ég orðið vitni að skelfilegum afleiðingum hamfarahlýnunar. Ég hef séð hvaða áhrif náttúruhamfarir eins og tíðari og sterkari fellibyljir, flóð og þurrkar hafa á líf fólks. En meðan stjórnvöld víða um heim og hér heima líka vilja ólm telja okkur falska trú um að þau séu raunverulega að gera eitthvað í málunum þá eru einstaklingar víða um heim að breyta hegðun sinni og neyslumynstri til þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Sannleikurinn er þó sá að ef við ætlum að tryggja börnum okkar og barnabörnum framtíð þá þurfum við alvöruaðgerðir frá þeim sem raunverulega menga mest. Þegar kemur að því spilar græn nýsköpun mikilvægt hlutverk. Við þurfum að halda áfram að þróa nýjar og vistvænar leiðir til að framleiða rafmagn og búa til hluti, ferðast og halda á okkur hita, nú eða kæla okkur í sumum löndum. Öll svið mannlífsins þurfa að verða kolefnishlutlaus. Það að keyra áfram og styðja við þá grænu nýsköpun sem þarf að verða er ein af þeim stærstu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem mannkyn. Til þess að það takist þurfum við nýsköpunarumhverfi þar sem samvinna og tilraunakennd sköpunargleði fær að blómstra í skjóli frá flóknu stjórnkerfisbákni. Við Íslendingar höfum búið til rafmagn og hitað upp húsin okkar með grænum orkugjöfum. Við búum líka yfir þekkingu á jarðfræði og því sem er undir fótunum á okkur og nýsköpunarverkefni eins og Carbfix hefur nýtt það til að binda koltvísýring í stein. Við Íslendingar höfum einstakt tækifæri til þess að spila mikilvægt hlutverk í því að styðja við bakið á grænni nýsköpun. Við getum nýtt okkur smæð okkar, þekkingu, orðspor og sveigjanleika til að skapa hér (Forseti hringir.) öflugt alþjóðlegt nýsköpunarumhverfi sem býr til þær lausnir sem munu bjarga kynslóðum framtíðarinnar frá hugsunar- og aðgerðaleysi okkar.