Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það fylgdu alls konar tilfinningar með í farteskinu þegar ég kom heim frá Serbíu þar sem ég tók þátt í alþjóðlegri mannréttindaráðstefnu á vegum Civil Rights Defenders vegna EuroPride-hátíðar þar í síðustu viku. Þetta var erfið upplifun og að vissu leyti erfið upprifjun fyrir mig. Skipuleggjendur hátíðarinnar birtu á samfélagsmiðlum ítarlegar leiðbeiningar til fólks um hegðun og ósýnileika, t.d. jafnvel: Poki með litlu pride-lógói gerir ykkur að skotmörkum. Passið ykkur að vera algerlega með á hreinu upplognar skýringar á því hvert þið eruð að fara og hvaðan þið eruð að koma ef þið eruð stoppuð af ofbeldisfólki á leiðinni.

Ég fylltist auðmýkt við að sjá kraftinn og hugrekkið hjá fólkinu sem alla daga lifir við þennan ótta. Belgrad varð fyrir valinu sem gestgjafi EuroPride fyrir þremur árum. Síðustu vikur hafa serbnesk yfirvöld síðan verið með misvísandi skilaboð; bannað, dregið til baka stuðning eða leyft með miklum skilyrðum og breytingum gönguna sjálfa sem er hápunktur Pride-vikunnar. Gangan fór fram en vægast sagt við sérstakar aðstæður, innan girðingar sem fleiri þúsundir þungvopnaðir lögreglumenn röðuðu sér við og fyrir utan svæðið voru hópar ofbeldismanna, öskrandi hótanir: Þið munuð öll deyja, lifi Serbía og lifi Pútín. Margir voru með Z-merkingar til merkis um stuðning við innrás Pútíns í Úkraínu. Þetta var verulega óhuggulegt. Þessum hópum lenti síðan ítrekað saman við lögregluna auk þess sem setið var fyrir fólki víðsvegar um borgina síðar um daginn og kvöldið. Fulltrúar yfir 50 Pride-samtaka víðs vegar að úr heiminum voru á hátíðinni, fulltrúar ýmissa mannréttindasamtaka, aktívistar, diplómatar víða að og þingmenn. Sá sýnileiki var gríðarlega mikilvægur.

Herra forseti. Skilaboð mín hér eru að okkur er hollt að hafa í huga að þessi barátta er líka barátta okkar vegna þess að þau sem berjast fyrir frelsi og fyrir mannréttindum hinsegin fólks í Serbíu eru í auga stormsins núna en við vitum ekki hvar hvessir næst (Forseti hringir.) né hvernig skjólið þar verður. Þetta er okkar ábyrgð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)