Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í fjárlögum ársins 2023 segir um sveitarfélög, með leyfi forseta, að eitt af markmiðum ársins sé að „sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi“. Í öðru markmiði segir að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Þetta eru göfug markmið en er fjárlagafrumvarpið að styðja við þessi markmið og er verið að gera ráð fyrir þeim fjármunum sem þarf til að þessi markmið náist?

Það þekkja allir þá stöðu sem upp er komin í málaflokki fatlaðra þar sem sveitarfélögum hefur verið gert með lagasetningu að auka þjónustu án þess að þeim hafi verið bættur sá kostnaður sem í dag er kominn yfir 10 milljarða á ári. Þetta hefur sett mörg sveitarfélög í verulegan vanda og dregur úr getu þeirra til að sinna öðrum mikilvægum verkefnum. Sama er að segja af sóknaráætlunum landshluta sem mörg sveitarfélög hafa lýst mikilli ánægju með. Í fjárlögum er verið að skera niður framlög ríkisins til sóknaráætlunar um 120 milljónir frá fyrra ári. Þá er ekki tekið tillit til verðlagsbreytinga. Raunvirði niðurskurðarins er því mun meira. Þetta mun hafa veruleg áhrif á getu sjóðanna til að styðja við verðug verkefni í heimabyggð. Þá mun niðurskurður í samgöngumálum upp á milljarða hafa mikil neikvæð áhrif.

Virðulegur forseti. Ég sé því ekki annað en að þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér þegar kemur að sveitarfélögunum séu neitt nema falleg orð á blaði ætluð til þess eins að breiða yfir getuleysi hennar í þessum málaflokki.