Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:29]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Forveri hv. fyrsta flutningsmanns í formennsku Samfylkingarinnar og þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, tók þá ákvörðun að gera hlé á samningaviðræðum við Evrópusambandið í janúar 2013 og frá þeim tíma hefur ekkert gerst. Þetta var í aðdraganda kosninga 2013, þannig að því sé haldið til haga. En þegar þessi ákvörðun var tekin höfðu íslensk stjórnvöld ekki með neinum hætti veitt þá pólitísku forystu sem nauðsynleg var í aðildarumsóknarviðræðum og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á það árið 2010 og aftur 2011 að það vantaði pólitíska forystu. Það kom m.a. fram í því að ekki var gerð grein fyrir því hver væru raunveruleg samningsmarkmið þáverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, þegar kom að sjávarútvegsmálum og þegar kom að landbúnaðarmálum. Það eina sem glitti í í þeim efnum var skýrsla Evrópuþingsins í apríl 2011. Og hvað stóð í henni, hv. þm. Logi Einarsson? Þar var bent á að Ísland hefði farið fram á að halda aðeins hluta af stjórn fiskveiða. Ég spyr hv. fyrsta flutningsmann: Er það svo að ef þessi tillaga sem hér liggur fyrir verður samþykkt og við höldum áfram samningaviðræðum, sé það samningsmarkmið okkar að halda aðeins hluta af stjórn fiskveiða eins og Evrópuþingið taldi að væri markmið íslenskra stjórnvalda árið 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013?