Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég vísa til samstöðu líkt þenkjandi þjóða þá vísa ég ekki síst til þeirra gilda sem Evrópuþjóðir byggja almennt á, þó svo að því miður séu einstaka dæmi um þjóðir sem eru jafnvel á rangri leið og Evrópusambandið með sínum tækjum og meðulum reynir að halda þeim á réttu spori.

Varðandi að Evrópa sé háð Rússum í orkumálum þá tek ég undir að það er auðvitað ekki heppilegt eins og málum er háttað í dag. Ég held þó að það hefði a.m.k. verið gagnrýnt jafn mikið á sínum tíma ef Rússum hefði verið sýndur fjandskapur, þeir beittir útilokun eða verið haldið utan samskipta við siðuð ríki á meðan hlutir voru á betri stað. Að Merkel, kanslari Þýskalands, hafi á sínum tíma gert þessa samninga við Rússland held ég að hafi að mörgu leyti verið viðleitni til að koma Rússum betur í takt við þau samfélög sem við viljum sjá Rússa þróast í. Vissulega stendur Evrópa þó frammi fyrir því að hún þurfi að bregðast við þessu. Það hefur hún gert og hefur sýnt með samtakamætti sínum og skjótum viðbrögðum að þessi álfa getur ýmislegt enda leiðandi á svo mörgum sviðum samfélagsins, hvort sem um er að ræða mannréttinda-, lýðræðis- eða loftslagsmál.