Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er fljótsvarað. Ég er þeirrar gerðar að ég held að það eigi einfaldlega að tala um að við eigum að hafa bæði belti og axlabönd. Ef einhver þjóð þarf á því að halda í öryggis- og varnarmálum eru það Íslendingar, ekki síst núna þegar áherslurnar á norðurslóðir eru að aukast, m.a. af hálfu Kínverja og Rússa. Við í Viðreisn lögðum fram, og erum reyndar eini flokkurinn sem hefur lagt það fram — það eru engar tillögur komnar frá Sjálfstæðisflokknum og náttúrlega engar tillögur komnar frá öðrum ríkisstjórnarflokkum um öryggis- og varnarmál, en strax eftir að stríðið skall á í Úkraínu þá lögðum við hér fram tillögu um þátttöku okkar, annars vegar varðandi NATO, að dýpka þátttökuna, auka framlög okkar, meta það hvort hér eigi að vera varnarlið, og hins vegar að meta það hvernig Evrópusambandið er að breytast með tilliti til þess að það er að auka öryggishlutverk sitt. Við viljum bara fá að vita nákvæmlega hvað það þýðir fyrir okkur að Evrópusambandið er að taka meira til sín og mun gera það með árunum. Það er ekki bara ég sem segi það heldur líka Úkraínuforseti og fleiri, að Evrópusambandið mun taka meira til sín þegar kemur að öryggis-og varnarmálum. Það er tvímælalaust þannig. Mér finnst svo furðuleg nálgun hjá þingmanni frá Sjálfstæðisflokknum að það megi ekki, ekki bara ræða Evrópu heldur ekki einu sinni meta okkar hagsmuni, ekki bara efnahagslega og viðskiptalega heldur líka öryggislega þegar kemur að Evrópusambandinu. Hver hættan? Það þarf að útskýra það fyrir mér. Danir ákváðu að það skipti þá máli. Þeir fengu þjóðaratkvæðagreiðslu og fóru af fullum þunga inn í Evrópusamstarfið hvað þetta varðar.

Síðan vil ég á móti einfaldlega minnast þess, og ég vona að það sé enn eitthvert mark takandi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, að hann ítrekaði á sínum tíma að það ætti að fylgja eftir umræðunni og viðræðum við ESB. Það var síðan allt svikið.