Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:59]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir góðu ræðu hér áðan og innblásna eins og hv. þingmanni er einum lagið þegar hún kemur í þennan stól. Hún kom ágætlega inn á það í sinni ræðu að við teldum, við sem værum svona frekar á grensunni með þetta mál, að það væri ekki tími fyrir það. En það er eitt í heiminum sem er alltaf nóg af og það er tími. Ég hef ekki heyrt það á málflutningi þeirra sem hafa talað um þetta mál að það væri ekki tímabært eða eitthvað svoleiðis. En í því ljósi þá vil ég halda mig við það sama og ég ræddi við hv. þm. Loga Einarsson, sem snýr að samningsmarkmiðunum. Mér finnst það ansi ódýrt að vísa til einhverra markmiða sem sett voru 2009, sem ég hef grun um að séu ansi óljós. Í því samhengi þá væri mjög æskilegt fyrir kjósendur þessa lands, áður en gengið er svo langt að fara að greiða atkvæði um þetta, að menn séu með einhver markmið á borðinu. Það var einnig mjög áhugavert í þessu samhengi sem kom fram hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hér áðan að það lægi fyrir hver niðurstaðan yrði um okkar fiskveiðiauðlind. Mér finnst það verulega áhugavert að það liggi fyrir nú þegar hver niðurstaða samningsins verður. Nú veit ég að hv. þingmaður er mun fróðari um Evrópusambandið en ég og því leikur mér forvitni á að vita, ef hún myndi upplýsa þingheim um það, hvers vegna hún telji að þetta sé niðurstaðan.