Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:18]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla bara að endurtaka það enn einu sinni að mér finnst virkilega ósmekklegt að draga þetta inn í umræðu um stríð þar sem kastljósið hefur ekki síst beinst að framferði forysturíkja og forystumanna í Evrópusambandinu og hvernig þeir hafa hagað sér og valdið því að Evrópa er í þeirri hryllilegu stöðu sem hún er í dag og ofurseld Rússlandi. Mér finnst ósmekklegt að þeir ESB-þingmenn sem vita það dragi þetta inn í umræðuna. Mér tel að þeir hljóti að tala gegn betri vitund og ég stend og fell með því. Ég hef sagt þetta ítrekað hér í þingsal.

Hv. þingmaður spyr síðan að því við hvað ég sé hrædd og rifjar upp hvað Sjálfstæðisflokkurinn var að gera árið 2013. Ég hef verið að fylgjast með umræðum sem hafa farið fram og til baka um að hér sé verið að teygja málið fram og til baka og að það megi ekki ræða hlutina efnislega. Ég biðla til hv. þingmanns um að við ræðum þetta mál einmitt efnislega, ekki um það við hvað við séum hrædd, því að við óttumst auðvitað ekki neitt. Við erum nýbúin að fara í gegnum kosningar þar sem öll þjóðin tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu hér fyrir ári síðan, þar sem m.a. ESB-aðild var rædd og niðurstaðan úr þeim kosningum var skýr. Það væri þá hægt að spyrja um þetta í hverju einasta máli, hverju einasta smámáli, af því að fyrir mér er þetta ekkert nema smámál og algerlega óviðkomandi og ekki á dagskrá, sem kemur hér upp í þingsal: Við hvað eruð þið hrædd? Eigum við ekki að kasta þessu í þjóðaratkvæði? En þannig er stjórnskipun okkar ekki uppsett. Við erum hingað valin, hér er fulltrúalýðræði og við höfum fengið umboð til að taka ákvarðanir. Mér þykir þetta vera svona upphrópunarstjórnmálastíll.