Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:27]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég tek undir að þetta er auðvitað bara hagsmunamat. Ég er algerlega sammála því að við eigum að ræða þetta sem oftast og ég hef farið yfir það nú þegar að mér hefur þótt skorta að Evrópusinnar hérna á þinginu hafi viljað ræða þessi mál. Ég fagna því að við séum hingað komin í dag til að ræða málið. Þarna undir er hagsmunamat þjóðarinnar og hagsmunamat atvinnulífsins eins og hv. þingmaður fór yfir. Afstaða þeirra er hins vegar alveg skýr. Hún hefur nýlega verið könnuð í þjóðaratkvæðagreiðslu og því getum við haldið áfram að ræða hér kosti og galla á þinginu. Ég tel þessa afstöðu vera alveg skýra.

Varðandi það að mér þyki ósmekklegt að draga þennan málatilbúnað hingað inn þá byggir sú skoðun á því að ég tel engin málefnaleg rök fyrir því að við ættum að gerast aðilar að ESB á þessum grunni. Þess vegna tel ég að þarna sé verið að villa um fyrir fólki með því að draga málið inn í umræðu um öryggis- og varnarhagsmuni Íslands. Þarna voru talin upp lönd sem endurmátu öryggis- og varnarhagsmuni sína með því að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu og breytt viðhorf Kína til öryggis- og varnarhagsmuna. Þarna voru ekki talin upp lönd sem eru í sömu sporum og við. Evrópusambandsþingmenn hafa lýst því hér á þingi að við ættum einhvern veginn að breyta grundvallarafstöðu okkar gagnvart aðild að Evrópusambandinu á þeim grunni að um gríðarlega öryggis- og varnarhagsmuni sé að ræða. Ég tel, þvert á móti, að atburðarásin og þær upplýsingar sem við höfum fengið í aðdraganda þessa stríðs og eftir að það hófst styðji að við ættum alls ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér þykir þetta vera grunnur málflutningur.