Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanninum kærlega fyrir svarið og við verðum auðvitað bara að vera sammála um að vera ósammála í þessu. En ég hjó líka eftir því í ræðunni að það var talað um að við þyrftum frekar að hlúa að og efla EES-samninginn. Þá langar mig að minna hv. þingmann á að innan hans eigin flokks eru uppi ákveðnar efasemdir um EES-samninginn. Því ættu menn kannski að byrja þar innan búðar þótt ég viti að það sé ekki sjónarmið meiri hluta í flokknum. En af því að við ræðum hér allan aðdragandann að þessu máli þá teygir þetta sig auðvitað meira en áratug aftur í tímann. Við verðum að ræða þetta á þeim forsendum. Þess vegna vil ég, þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi ekki viljað svara spurningu um það í fyrri orðaskiptum, spyrja um það sem gerðist í aðdraganda kosninganna 2013 og trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins í málinu. Sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem allir urðu ráðherrar eftir kosningar, sögðu skýrt: Þjóðin á að vera spurð. Þjóðin á að fá að greiða atkvæði um hvort eigi að halda áfram með þessar aðildarviðræður eða ekki (Forseti hringir.). Hver er trúverðugleiki flokksins? Hver er trúverðugleiki stjórnmálamanna (Forseti hringir.) sem segja skýrt fyrir kosningar að þjóðin eigi að ráða en eftir kosningar að hún eigi ekki að ráða neinu, við ætlum að senda SMS til Brussel.