Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:31]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið. Við erum kannski sammála um að vera ósammála um margt, en við erum sammála um að hlúa að og efla EES-samstarfið okkar. Ég þakka fyrir hvatninguna varðandi minn eigin flokk. Það er nú svoleiðis í stórum stjórnmálaflokki, stærsta stjórnmálaflokki landsins, að þar rúmast ýmis sjónarmið. Við tökumst á um ýmislegt en það var auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sem kom okkur þó inn í þetta samstarf á sínum tíma sem reyndist vera eitt okkar allra stærsta gæfuspor. Það var sömuleiðis ekki fyrr en að Sjálfstæðisflokkurinn tók við utanríkisráðuneytinu að við fórum almennilega að setja eitthvert púður og metnað í að hlúa að EES-samstarfinu í okkar utanríkisþjónustu þannig að þú getur þakkað mér fyrir það seinna.

Þegar ítrekað er rifjað upp hvað var sagt á landsfundi árið 2013 eða hverju var lofað, þá get ég ekki sífellt komið hingað upp og svarað fyrir það. Ég tel trúverðugleika okkar flokks vera hreint ágætan í þessum efnum.

Ég svara aðallega fyrir sjálfa mig. (Forseti hringir.) Mér finnst ég hafa fínan trúverðugleika í málinu og ég mun halda áfram að leggja mesta áherslu (Forseti hringir.) á að hlúa að samstarfi og EES-samningnum okkar sem er mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga.