Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu um þetta mjög svo mikilvæga mál. Ég er aðeins hugsi yfir þessu orðavali, hvað sé smekklegt og ósmekklegt í utanríkismálum og hagsmunamati ríkja eins og hér hefur áður verið komið inn á. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé í raun og veru þeirrar skoðunar að það sé þá á einhvern hátt ósmekklegt að Moldóva vilji ganga í Evrópusambandið til að tryggja hagsmuni sína í Evrópu. Er það á einhvern hátt ósmekklegt að Úkraína og Volodymyr Zelenskí tali mjög skýrt um að innganga í NATO og ESB sé grundvallaratriði fyrir Úkraínu til að tilheyra hinni vestrænu lýðræðishefð sem bæði NATO og Evrópusambandið tilheyra? Ég verð bara að segja eins og er, frú forseti, að ég gef lítið fyrir þessar fullyrðingar þingmannsins og held að henni hafi bara hlaupið kapp í kinn hér í umræðunni. Telur hv. þingmaður að það gildi allt annað um samstarfið sem Ísland á innan NATO en hugsanlegt samstarf sem aðildarríki innan ESB er varðar framtíðarhagsmuni landsins? Ég er alveg sammála þingmanninum um að aðild að ESB snýst um svo miklu meira en öryggismál, en það er hluti af samfélagi þjóða sem telja sig lýðræðisríki og hafa með sér samstarf og mikil viðskipti sem skipta mjög miklu máli og eru eiginlega grundvöllurinn undir því samstarfi öllu. Það sem ég skil ekki í málflutningi þingkonunnar, frú forseti, er hvers vegna ein tegund af alþjóðasamstarfi er verðug en hin ekki.