Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt að hér þarf að fara fram mjög heildstætt hagsmunamat og um það snýst þessi tillaga. Hún snýst um það að við sem þjóð förum í gegnum það í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við viljum halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég vísa til þess sem segir í greinargerðinni, vegna þess að þingmaðurinn heldur áfram að klifa á því að það sé svo ósmekkleg tengingin við innrás Rússa og Vladimirs Pútíns í Úkraínu, að Ísland sendi bréfið til Brussel 16. júlí 2009 fyrir 13 árum og þessi tillaga hefur verið flutt með einum eða öðrum hætti að mér sýnist fjórum sinnum áður. Þá hafði sem betur fer ekki verið ráðist inn í Úkraínu en það gerðist því miður í febrúar á þessu ári. Ég næ bara ekki hvernig sjálfstæðismenn og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér inni ætla að nota Úkraínustríðið til að grafa undan umræðunni um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi.