Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:38]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Núna finnst mér aftur svolítið búið að snúa hlutunum á hvolf. Hér er ég hingað komin til að kvarta yfir því að ESB-sinnar á þingi séu að nota einmitt stríðið í Úkraínu til framdráttar sínum málflutningi um aðild að ESB og ég verð að hafna því að það hafi verið málflutningur okkar hinna, eða a.m.k. okkar sjálfstæðismanna, hér á þingi að við séum einhvern veginn að nota þessa samlíkingu í annarlegum tilgangi. Þvert á móti erum við að gagnrýna þessi tengsl í þessu tilliti. Ég tel að ástæðan fyrir því að ESB-sinnar á þingi eru að tala um öryggis- og varnarmál sé sú að þeir vilji einfaldlega ekki að ræða það sem allir vita, en einhverjir virðast hafa gleymt, að við þurfum að ræða. Við þurfum einfaldlega að ræða það hvort við viljum útvíkka Evrópusamstarfið sem við þegar eigum í gegnum EES-samninginn því það liggur alveg kýrskýrt fyrir hvað heyrir undir EES-samninginn og hvað ekki. Með því er verið að ræða endalaust um öryggis- og varnarhagsmuni og vekja upp einhverja óttatilfinningu hjá fólki og að það sé að komast í eitthvert öruggt skjól hjá Evrópusambandinu, þá losna Evrópusinnar á þingi við það að ræða hvort við viljum að landbúnaðurinn heyri undir sameiginlegar reglur Evrópu, fiskveiðarnar, skattamál, gjaldmiðlasamstarf, byggðastefna, réttarvarsla, dóms- og innanríkismál, hvort við viljum vera hluti af tollabandalagi Evrópusambandsins o.s.frv. Þetta eru málin sem Evrópusinnar á þingi vilja ekki ræða. Þeir vilja frekar hræða fólk með því að þetta sé mikilvægt öryggis- og varnarmál og þar liggur okkar gagnrýni.