Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Áður en þjóðin sker hv. þm. Sigmar Guðmundsson og okkur hin úr snörunni verður þjóðin að fá að vita hvaða markmiðum hv. þingmaður ætlar að ná með því að hefja aftur viðræðurnar, þannig að almenningur viti á hvaða grunni eigi að taka afstöðu til þess að halda áfram viðræðum þegar meira að segja Evrópusambandið, fari ég rétt með og ætla þó að hafa fyrirvara á, lítur ekki lengur á Ísland sem umsóknarríki. Ég veit ekki einu sinni hvað á að hefjast handa við. Ég ætla að fullyrða, hv. þingmaður, varðandi þá vinnu sem átti sér stað, þessir kaflar sem þó var búið að ljúka og ég veit ekkert hvernig þeim lauk í sjálfu sér, að öll þyngstu málin voru eftir og átti eftir að ræða, eins og ég vék að. Hvaða markmið eru menn að setja? Hvaða pólitísku stefnu ætla þingmenn að hafa í samningaviðræðum ef þær verða teknar upp að nýju eða sótt um að nýju? Þetta verður almenningur að fá að vita áður en hv. þingmaður kemur krjúpandi á kné til almennings og biður hann að skera sig úr snörunni.