Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var áhugaverð tala hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Nú eru þetta í sjálfu sér engin geimvísindi. Við erum ekkert að feta einhverjar slóðir sem engin þjóð hefur fetað áður, það að ræða um Evrópusambandið eða eftir atvikum að ganga inn í Evrópusambandið er ekki einhver jaðarskoðun sérviskumanna í Evrópu. Það eru 27 Evrópuríki þarna inni. Frakkar eru þarna, Norðurlöndin eru þarna, a.m.k. flest þeirra, þó að við og Norðmenn séum enn þá fyrir utan. Við erum með Þýskaland þarna inni, Benelux-löndin, Spán, Portúgal. Þetta er ekki jaðarskoðun. Að okkur Íslendingum sé einhvern veginn alveg fyrirmunað að setjast niður og skilgreina einhver markmið og athuga það hvað kæmi út úr samningnum, að það væri eitthvað voðalega erfitt — það er auðvitað ekki þannig. Það liggur hins vegar alveg fyrir að þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þá þarf að setjast niður og móta það vel og hafa það handfast hvað þarf að gera þar.

En ég vil spyrja hv. þingmann: Heldur hann það í eina sekúndu að ég og aðrir þingmenn sem tölum fyrir þessu máli myndum einhvern tímann ljá máls á því að ganga inn í sambandið ef sjávarútvegshagsmunir okkar yrðu fyrir borð bornir, ef orkumálin okkar yrðu fyrir borð borin og við hefðum ekki lengur stjórn þar á? Trúir þingmaðurinn því að við myndum gera það? Það er nefnilega skoðun okkar í Viðreisn og við höfum talað þannig frá upphafi að við myndum aldrei samþykkja einhvern samning sem ýtti íslenskum hagsmunum með einhverjum vafasömum hætti út af borðinu. Það yrði alltaf markmið í samningnum að við héldum forræði yfir auðlindum okkar. Það hafa öll ríki Evrópu lagt sína hagsmuni á borðið í samningaviðræðum við Evrópusambandið og samið um aðildina. Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið. Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta gert það sama? Ég vil bara fá hreint svar við þessari spurningu minni: (Forseti hringir.) Trúir þingmaðurinn því að það séu þingmenn aðrir úr öðrum flokkum hér í þessum sal svo illa innrættir að þeir vilji ganga þarna út til þess að spilla fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar?