Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Með sama hætti og það kallaði á nýtt hagsmunamat okkar Íslendinga þegar Bretland tók ákvörðun um að ganga úr Evrópusambandinu þá yrðum við auðvitað að meta okkar stöðu ef vinaþjóð okkar, Norðmenn, sem er auðvitað burðarstoðin í EES-samstarfinu EFTA-megin, færi sér að voða í Evrópusambandinu vegna þess að ég held að hagsmunum Noregs væri ekki betur borgið þar. Ég held að þeim sé best borgið innan Evrópska efnahagssvæðisins eins og okkar. Þetta breytta hagsmunamat var gert í tíð þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og áttum við orðastað um þau mál.

Ein röksemd þess að taka tillöguna upp um þessar mundir hefur verið breytt ástand vegna innrásarinnar í Úkraínu. Nú er það svo að meira að segja Evrópusambandið treystir fyrst og fremst á NATO þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Um það verður ekki deilt og meira að segja Þjóðverjar og Frakkar og aðrar burðarþjóðir Evrópusambandsins bera ekki á móti því. En staða okkar er allt önnur en vinaþjóða okkar Dana, Svía og Norðmanna. Hvers vegna? Jú, við erum nefnilega með varnarsamning við Bandaríkin sem aðrar þjóðir hafa ekki.