Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg nú að NATO láti t.d. netöryggismál mjög til sín taka og ég á löng samtöl við félaga minn og hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson um þau málefni og hann reynir að halda mér upplýstum.

Staða okkar Íslendinga er á margan hátt öfundsverð, ekki bara í efnahagslegu tilliti borið saman við önnur lönd heldur líka þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Fyrir utan NATO-aðildina erum við með þennan tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin sem felur í sér gríðarlegar skuldbindingar fyrir Bandaríkjamenn og okkur. Þetta er vernd sem engin önnur þjóð hefur. Við eigum hins vegar að leggja áherslu á það, í dag og um langa framtíð, að eiga náið og gott samstarf við Evrópusambandið. Það skiptir okkur miklu máli að Evrópusambandinu vegni vel og að það búi við frið og öryggi, bæði innra og ytra.

Ein af ástæðum þess að ég er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið, sem ég hef ekki enn minnst á, er að ég tel að kostum okkar muni fækka við það. Við munum ekki eiga jafn marga kosti í samskiptum við þjóðir heims eins og við eigum í dag vegna þess að við munum missa forræði þeirra samskipta, svo sem þegar kemur að tvíhliða samningum um utanríkisviðskipti, tolla o.s.frv. Við eigum auðvitað að tryggja að þar ráði okkar hagsmunir fyrst og síðast og við náum samningum við aðrar þjóðir á grundvelli gagnkvæmra hagsmuna. (Forseti hringir.) Það hræðir mig ef við ætlum að fækka kostunum með Evrópusambandsaðild í stað þess að vinna sameiginlega að því að fjölga þeim.