Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum hér í dag að ræða einfalda spurningu sem er um leið grundvallarspurning. Við erum að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort leggja eigi fyrir þjóðina þá spurningu hvort landsmenn vilji að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem yrði síðan borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Hreinræktuð þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekna og afmarkaða spurningu. Það er stór ákvörðun að segja já við aðild og það er stór ákvörðun að segja nei við aðild. Í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir verður þessi umræða að fá að fara fram og þjóðin verður að fá að taka þessa ákvörðun. Versta niðurstaðan er sú að gera ekkert, taka ekki samtalið. Það er dapurlegt að berjast gegn því að þjóðin fái að taka þessa ákvörðun, til þess eru hagsmunirnir einfaldlega of miklir.

Það hafa orðið vatnaskil í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu. Það er staðreynd. Viðbrögð nágrannaríkjanna við breyttri stöðu heimsmála hafa verið skýr. Í Danmörku — hvað gerðist? Þar var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem samþykkt var að falla frá fyrirvörum um að taka fullan þátt í varnarsamstarfi ESB. Það gerðist í beinu framhaldi af breyttri stöðu í kjölfar innrásarinnar. Þar minnist ég þess ekki að andstæðingar hafi talið atkvæðagreiðsluna eða umræðuna ósmekklega. Það er nefnilega ekki allt ósmekklegt sem maður er ósammála. Var það ósmekklegt af Úkraínu að sækja um aðild í beinu framhaldi af innrás? Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé ósmekklegt þó að þingmenn annarra flokka séu mér ósammála um þá afstöðu sem ég hef í þessu máli, en mér finnst það óhuggulegt að hér séu fleiri en einn og fleiri en tveir þingmenn sem vilja ekki byggja umræðu um utanríkispólitík á stöðu heimsmála. Það er umhugsunarefni. Innrásin varð til þess að Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO. Það gerðu þeir í beinu framhaldi af innrásinni. Þetta þýðir að Danir, Svíar og Finnar verða samstiga á vettvangi NATO og ESB í varnar- og öryggismálum og það fer fram umræða í Noregi.

NATO-aðildin veitir hernaðarlegt skjól, um það er varla deilt, hernaðarlegt skjól gagnvart utanaðkomandi ógnum. En ógninni verður ekki bara mætt með hernaðarmætti heldur ekki síður samstöðunni, með samstarfinu um lýðræðisleg gildi og virðingu fyrir mannréttindum, það er atriði í þessu. Nýr veruleiki í öryggis- og varnarmálum kallar á hagsmunamat Íslands, hvort þeim sé betur varið innan eða utan Evrópusambandsins. Og það er auðvitað þannig með stórar spurningar að svörin eru ekki alveg einföld. En umræðan og hagsmunamatið verður að fá að fara fram. Samtal og rökræða um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar verður að fá að fara fram og þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa tilteknu spurningu er vel til þess fallin — sérstaklega vel til þess fallin að þroska og dýpka umræðuna um stöðu Íslands og hagsmuni gagnvart Evrópusamvinnunni.

Það hefur ríkt fallegur samhugur á Alþingi um eindreginn stuðning við málstað Úkraínu en það þarf jafnframt í kjölfarið að ræða hvaða áhrif þessi breytta staða hefur á Evrópu og Ísland. Allir flokkar ættu í mínum huga að sameinast um að fram fari samtal um kosti og galla aðildar og að við ræðum það en ekki hversu smart umræðan er eða þykir vera. Þjóðin á að fá að taka þessa ákvörðun og það verður að hafa það í huga þegar við ræðum um þjóðarvilja að þar er nú að verki hugmyndafræðin um sjálft lýðræðið. Þessi ákvörðun er svo veigamikil, hún er svo stór, hún hefur svo mikla þýðingu að umræðan og þjóðaratkvæðagreiðslan verður að eiga sér stað.

Forseti. Evrópusambandið er eitt mikilvægasta friðarbandalag sögunnar. Það styður frelsi, öryggi, réttindi almennings þvert á landamæri. Þetta er falleg hugsjón og mikilvæg sem hefur reynst Evrópu dýrmæt. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð og það eru þær þjóðir sem tilheyra Evrópusambandinu auðvitað líka. Þær eru sjálfstæðar og þær eru fullvalda. Þær styrkja fullveldi sitt með því að fara inn í þetta samstarf. Við erum að tala fyrir því að eiga sæti við borðið í samfélagi þjóða eins og aðrar sjálfstæðar og fullvalda þjóðir hafa valið að gera. Tilgangur þessarar tillögu er í mínum huga að styrkja fullveldið, efla stjórnmálaleg tengsl, treysta varnir, örva viðskipti, styrkja efnahag, tryggja framgang markmiða Íslands í loftslagsmálum og vera með belti og axlabönd í öryggismálum. Það er ástæða fyrir því að við erum aðili að og hluti af Sameinuðu þjóðunum, NATO og Norðurlandaráði, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Schengen, EES, Mannréttindadómstóli Evrópu. Það er ástæða fyrir því að við veljum að standa ekki fyrir utan. Við viljum vera með í samstarfi sem hefur gríðarleg áhrif á hagsmuni og framtíð okkar. Nágrannaríki okkar í Evrópu eru ekki í neinum vafa um mikilvægi Evrópusambandsins fyrir eigið öryggi og það eru reyndar nágrannaríki Rússlands ekki heldur.

Mig langar aðeins til að nefna eitt atriði hér stuttlega af því að það hefur ekki mikið verið rætt er varðar loftslagsmálin og hagsmunina þar. Evrópusambandið hefur verið mjög framarlega í þessum málaflokki og hefur áttað sig á því að það þarf samstarf ríkis og atvinnulífs til að ná árangri, það hefur mótað öflugt styrkjakerfi til að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum að takast á við breyttar kröfur.

Ég hef sagt það áður hér í þessum sal og segi það aftur í dag að ég er þeirrar skoðunar að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi ættu að sameinast um það að hér fari fram samtal um hagsmunina og um áhrif stríðsins í Evrópu á öryggis- og varnarhagsmuni Íslands, um hvað það þýðir fyrir herlausa þjóð að tilheyra NATO en standa fyrir utan Evrópusambandið, samtal um þýðingu frekari Evrópusamvinnu fyrir Ísland og um kosti og galla aðildar. Ég er ekki í hópi þeirra sem halda því fram að svarið sé algerlega augljóst og það þurfi ekki að vega og meta kosti og galla. Ég er þeirrar skoðunar að kostirnir séu umtalsvert fleiri en ekki þannig að spurningin sé algerlega svart/hvít því að svör við stórum spurningum eru ekki endilega einföld. En við verðum að eiga þessa umræðu. Ísland er fámennt land og hér er enginn her. Við eigum augljóslega allt undir því að alþjóðalög séu virt. Þess vegna finnst mér það umhugsunarvert að þessir grundvallarhagsmunir séu, að manni virðist, ekki til umræðu við ríkisstjórnarborðið og ríkisstjórnarflokkarnir, a.m.k. sumir þeirra, virðist forðast þetta samtal á allan mögulegan hátt. Þeir sem eru á móti aðild að Evrópusambandinu hafa alla jafna nálgast umræðuna hér inni í þessum sal þannig að þeir furða sig á henni. Þeir furða sig á tímasetningunni. Þeir furða sig á samhenginu. Þeir furða sig á því að ekki séu allir sammála þeim og allt þetta. En við komumst einhvern veginn aldrei lengra í samtalinu um það að fá efnisumræðuna. Þessir flokkar ættu í mínum huga miklu frekar að fagna rökræðunni því að það er merkilegt þegar við skoðum stóru myndina eins og hún blasir við okkur í dag, að komast að þeirri niðurstöðu að umræða um Evrópumál, að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi ekki erindi við fólkið í landinu, nú eða þannig að lýðræðisleg umræða á Alþingi Íslendinga um grundvallarhagsmuni þyki ósmekkleg.

Afstaða Viðreisnar er sú að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé betur borgið í nánara samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, okkur sé betur borgið fyrir innan en fyrir utan. En okkar afstaða og afstaða mín er alveg skýr um það að þessa ákvörðun á þjóðin sjálf að taka.

Mig langar í lokin að nefna að við sjáum hvernig stjórnmálin í kringum okkur hafa sinnt grundvallarhlutverki sínu í kjölfar innrásar. Stjórnmálaleiðtogar og flokkar hafa skilið að það er beinlínis hlutverk þeirra að leiða samtal um viðbrögð við stöðunni óháð því hver afstaða þeirra er. Ástæða þess að þetta samtal hefur farið fram í öðrum ríkjum er ekki sú að allir flokkar þar séu sammála. Og þar benda menn ekki á þingkosningar þar sem kosið er um mörg mál og segja bara að vegna þess að þingkosningar hafi farið fram sé ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt eða neitt. Umræðan fer einfaldlega fram vegna þess að hagsmunir ríkjanna krefjast þess að þessi mál séu rædd af alvöru. Menn hræðast ekki að eiga þetta samtal og taka það út úr þingsalnum, eiga það við þjóðina og leyfa þjóðinni að kjósa. Það heitir lýðræði.