Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:22]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þegar við skoðum söguna og hvaða lærdóm Evrópuríkin drógu af seinni heimsstyrjöldinni þá varð til sá skilningur að til að varðveita friðinn í álfunni skipti hernaðarmátturinn máli en ekki síður að efla og styrkja samvinnu þjóðanna um viðskipti og efnahag. Þetta samstarf tengist þessum öryggis- og varnarhagsmunum órofa.

Þegar hv. þingmaður spyr með hvaða hætti það birtist þá myndi ég hvetja hann til að fylgjast með þeirri umræðu sem fram fór í Danmörku í beinu framhaldi af innrás Rússlands í Úkraínu þar sem Danir tóku þá ákvörðun, þjóðin sjálf, að hverfa frá þeirri undanþágu sem þeir höfðu verið með um þátttöku í varnarstarfinu. Það er stundum á þingmönnum Sjálfstæðisflokks að skilja að þessi þáttur Evrópusamstarfsins sé enginn, að hann sé ekki til. Ég ætla ekki að halda því fram að hann sé algerlega hliðstæður við NATO en það er ekki svo að þetta sé ekki þáttur í samstarfinu. Við sáum t.d. sögulega ákvörðun Evrópusambandsins í samhengi við aðgerðir í þágu Úkraínu eftir innrásina þar sem Evrópusambandið tók ákvörðun í fyrsta sinn um afgerandi stuðning, ekki bara um efnahagslegar aðgerðir eða viðskiptahindranir. Ég myndi hvetja þingmenn til að skoða umræðuna í Danmörku um þetta.