Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ástæða þess að ég spurði að þessu var ekki síst sú staðreynd að evrópsk löggjöf mótar auðvitað nú þegar íslenskar réttarreglur mikið á mörgum, ef ekki flestum, sviðum þjóðarinnar. Skrefið sem fælist í því að þjóðin myndi greiða aðild atkvæði sitt er að þessu leyti mun minna en það skref sem þegar hefur verið stigið. Ávinningurinn í mínum huga yrði pólitískur, lýðræðislegur og efnahagslegur, og myndi varða öryggi okkar. En ég held líka að á þeim tíma sem liðinn er frá 2009 þá hafi verið stigin stór skref og Evrópusambandið hefur haft sterka rödd á sviði mannréttindamála og beitir sér um þessar mundir markvisst fyrir aðgerðum í þágu loftslagsmála, því að það eru jú aðgerðir sem telja en ekki orð. Ég er þeirrar skoðunar að með aðild værum við komin inn í stofnanaumgjörð sem myndi styðja við markvissa og virka samkeppni, virkari hagsmunagæslu í þágu neytenda og íslenskur markaður myndi komast úr þessum kúltúr sem einkennist að mestu leyti af fákeppni, því miður. Það er lítið rætt um þessar mörgu jákvæðu hliðarverkanir af aðild.