Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nefndi auðlindaákvæðið af því að ég tel rétt, hvernig sem við snúum okkur í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, að við göngum frá því að það sé auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands.

Því hefur verið haldið fram af þeim sem óttast aðildina að það sé verið að ásælast auðlindir okkar. Það kann að vera að einhverjir ásælist þær en við skulum þá byrja á því hér heima að vinna vinnuna okkar og tryggja óvefengjanlega eign almennings á sameiginlegum náttúrulegum auðlindum þjóðarinnar. Ég er ekki eins svartsýn og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir þegar kemur að samningaviðræðum við Evrópusambandið. Það er alveg rétt að í raun er verið að semja um aðlögun. Ég ætla ekki að deila um það og halda öðru fram. Hins vegar er alveg skýrt að innan Evrópusambandsins halda lönd umráðum yfir auðlindum sínum. Þá komum við að reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem sum okkar muna vel eftir. Það er nefnilega þannig að hún byggir á reynslu þjóða og í tilviki Íslands, ef við tölum um fiskveiðiauðlindina, byggir hún á fiskveiðireynslu Íslendinga og fyrirtækja í íslenskri eign innan íslensku lögsögunnar. Engir aðrir hafa þá veiðireynslu og því myndi ég halda að það væri býsna sterk samningsstaða. Hitt er svo alveg rétt að sjávarútvegskaflinn var ekki opnaður þegar viðræðunum var illu heilli frestað, en ef ég man rétt þá var hann ekki opnaður m.a. vegna þess að við áttum enn þá í deilu við bæði ESB og Noreg um makrílinn. Þessar þjóðir vildu fyrst semja um makrílinn og svo opna kaflann.