Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:50]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þá skil ég hana sem svo að hún telji mikilvægt að þetta auðlindaákvæði verði lögfest sem einhvers konar vörn eða skilaboð fyrir aðildarviðræður, sem eru í raun innleiðingarviðræður við Evrópusambandið.

Hvað varðar reglu um hlutfallslegan stöðugleika og að hún leiði til þess að veiðiheimildirnar myndu að mestu falla til Íslendinga, þá byggist sú regla á samþykktum ráðherraráðs ESB hverju sinni og ekkert því til fyrirstöðu að henni verði breytt, svo því sé haldið til haga. Hv. þingmaður nefnir af hverju sjávarútvegskaflinn var aldrei opnaður. Ég held það hafi hreinlega ekki verið lagt í það út af öllum þeim ormum sem þar hefðu komið upp. En af því að þessir samningar voru nefndir þá fellur réttur aðildarríkja til að gera sjálfstæða fiskveiðisamninga niður við aðild að ESB og í því tilliti er vert að hafa í huga einmitt það sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. hversu oft Ísland og ESB hafa tekist harkalega á í þessum efnum.