Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:55]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem átt hefur sér stað í dag. Hún hefur verið bara gagnleg og ég hef getað nestað mig talsvert á þeim orðum sem hér hafa verið látin falla. Ég er einn af þeim sem sat í samningahópi á sínum tíma og sá hópur fjallaði um sveitarstjórnar- og byggðamál. Þar sat ég fyrir hönd ASÍ á meðan þessar aðildarviðræður voru í gangi og lærði mikið þar. Það gerðist svo að hæstv. utanríkisráðherra þess tíma, Gunnar Bragi Sveinsson, rak mig og reyndar fleiri. Við vorum bara send heim.

Mér fannst þetta mjög áhugaverður tími, að fá að sitja og taka þátt í þessum samningahópi. Þar lærði ég margt og ég upplifði það aldrei á þeim tíma að reynt væri að leggja fyrir okkur einhverjar gildrur. Aldrei, nema síður væri, frekar hitt að það væri verið að halda að okkur og gauka að okkur tækifærum sem fólust m.a. í sjóðum sem voru inni í ESB sem hefðu getað nýst alla vega ákveðnum hluta landsins. Það byggði auðvitað á því að þá var aldrei klárað að skilgreina Ísland endanlega, hvort það væri kalt svæði eða að hluti af því væri eitthvað annað en kalt svæði. Við vorum komin ansi áleiðis með það að stærsti hluti Íslands yrði skilgreindur sem kalt svæði. Það jók möguleika Íslands til að sækja í þá sjóði sem voru ætlaðir fyrir byggðarlög og atvinnustarfsemi á köldum svæðum. Ég hef reyndar lengi vel, eftir að hafa búið erlendis og tekið þátt í daglegu lífi innan Evrópu, verið Evrópusinni og í framhaldi af því Evrópusambandssinni. Það er kannski ekki undarlegt að eyþjóð sé tortryggin gagnvart ægivaldi hins stóra. Ég geri mér ekki grein fyrir því.

Mér þótti það merkilegt þegar ég fór til Afríku á sínum tíma að þar voru menn ekki að ræða hvaðan þeir voru, þeir voru Afríkumenn. Það er í mesta lagi að við skilgreinum okkur út frá sveitarfélaginu okkar; ég er Keflvíkingur eða Vestmannaeyingur. Við komumst ekki einu sinni í það að skilgreina okkur sem Íslendinga. Þarna hugsa þessar þjóðir með einhverjum hætti öðruvísi en við og tilheyra þessari stóru heild og vilja tilheyra þessari stóru heild.

Mig langar að rifja það upp, eins og hefur reyndar verið gert í dag, að upprunalegur tilgangur samvinnu í Evrópu, sem var undanfari Evrópusambandsins, var að koma á friði sem var ekki til staðar í Evrópu. Þetta var auðvitað bara þannig að ungir menn í sitthvoru landinu, sitthvorum megin við lækinn, voru síðan kallaðir í stríð, kannski vinir, til að drepa hver annan. Þetta var það sem rak Evrópuþjóðir til að hugsa málin upp á nýtt. Þurfum við ekki að gera eitthvað annað til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir gerist í túnfætinum hjá okkur?

Það er einhver ástæða fyrir því að aðrar þjóðir hafa tekið þessi skref og valið að stíga inn í Evrópusambandið. Það er einhver ástæða fyrir því að austantjaldsþjóðirnar, þegar þær losnuðu undan oki járntjaldsins, völdu að óska eftir aðild að Evrópusambandinu. Það er einhver ástæða fyrir því að Úkraína leggur á það áherslu að komast inn í ESB. Það er einhver ástæða fyrir því að Eystrasaltsríkin öll sem eitt fóru inn í ESB. Ég er hissa á þessari hræðslu sem hér er verið að búa til, að við höfum eitthvað að óttast.

Mig langar að nefna það hér að stjórnmálamenn eru oft og einatt að lofa einhverju fyrir kosningar og gera svo eitthvað allt annað eftir kosningar. Á sínum tíma, í aðdraganda kosninganna 2013, voru mýmargir stjórnmálamenn sem lofuðu því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta málefni en af því hefur ekki orðið tæpum áratug seinna. Ég er með samantekt frá 2016 sem mig langar aðeins að glugga í, með leyfi forseta. Þar er rakið hvað menn sögðu í aðdraganda kosninganna 2013. Þar eru nefndir þingmenn eins og Illugi Gunnarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Kristján Þór Júlíusson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, sem lofuðu því — þetta er til á vídeó þannig að það er hægt að sjá þetta allt saman — og sögðu: Að sjálfsögðu förum við í atkvæðagreiðslu, við getum gert það á kjörtímabilinu. Þannig voru þau orð á þeim tíma. Í framhaldi af þessu varð til þetta orðalag „pólitískur ómöguleiki“ sem hefur verið nýtt við ansi mörg tækifæri.

Sagt er: Já, EES-samningurinn, hann er bestur í heimi. Já, auðvitað er hann góður, hann er mjög góður. En ef við horfum bara á EFTA-stoðina, hvernig hefur hún breyst? Er hún eins og hún var? Hvar er Portúgal í EFTA? Hvar er Austurríki í EFTA? Hvar er Danmörk í EFTA? Hvar er Svíþjóð í EFTA? Af hverju þessi lönd farin? Af hverju völdu þau að stíga út úr EFTA og fara inn í ESB? Af hverju fóru Finnar inn í ESB og gleyptu bara allt sem þar var í einum bita, tóku upp evruna og gerðu allt sem ESB stóð í raun og veru fyrir? Ég fæ ekki betur séð en að þetta hafi bara gagnast Finnum ágætlega.

Hér hefur verið haldið á lofti, og kannski með réttu, að við breytum ekki stofnsáttmála ESB. Stofnsáttmálinn hefur staðið eins og hann hefur verið frá stofnun en það hafa verið gerðir svokallaðir viðaukar við þennan stofnsáttmála. Það nægir bara að nefna skilgreininguna á köldum svæðum sem Finnar komu í gegn á sínum tíma sem virka fyrir Finna; um landbúnað á köldum svæðum. Ég sé ekki að finnskir bændur berjist fyrir því að komast út úr ESB.

Gæti ekki verið eitthvað þarna sem gæti gagnast okkur og er eitthvað að því að skoða það? Ef við erum að tala um að við viljum standa fyrir lýðræði, af hverju stöndum við þá í vegi fyrir því að þessi mál séu skoðuð af einhverri alvöru? Ég næ þessu ekki. Ég held að við séum alveg klár á því að ekkert okkar mun samþykkja samning sem kemur sér illa fyrir íslenska þjóð. Ég mun aldrei gera það. Ég held að við myndum fara inn í þessar viðræður við ESB þannig að við hefðum hag af því, en ekki bara hag af því, við getum líka lagt eitthvað til málanna. Við eigum ekki alltaf að segja: Hvað er þetta fyrir okkur? Gleymum ekki að orðum Kennedys á sínum tíma. Hvað er þetta fyrir okkur? Hvað getum við lagt til? Getum við ekki gert eitthvað gagn suður í Evrópu, hjálpað til? Fyrir mig er það að kjósa um þetta mál merkilegur lýðræðislegur atburður sem þjóðin ætti að fá að taka þátt í. Það ætti að vera keppikefli okkar allra að standa fyrir slíkum atburði.