Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:06]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég stend mig að því að koma upp í ræðupúlt trekk í trekk til að svara fyrir og ræða það sem þingmenn sögðu hér eða sögðu ekki fyrir tæpum áratug síðan, þingmenn sem flestir eru nú horfnir til annarra starfa. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ræða þessi mál hér á þingi og við gerum of lítið af því, þau mál sem brenna helst á þingmönnum, og ég hef lýst því að ég hef saknað þess að við ræðum meira um utanríkismál, sérstaklega Evrópumálin. Ég varð ekki vör við svona mikinn áhuga þegar ég var aðstoðarmaður utanríkisráðherra. En mér finnst það hins vegar furðulegur málflutningur frá ESB-sinnum á þingi að það sé einhver lýðræðisbragur á því að það eigi að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu eitthvert mál flokka á Alþingi sem náð hafa eyrum rétt rúmlega fjórðungs kjósenda varðandi sín mál og hafa ekki frekari stuðning til þess á þinginu, slagar ekki einu sinni upp í helming þingmanna. Ég er bara ósammála því. Það er hreinlega ekki meiri hluti fyrir því á þinginu. Ég tel ekki vera meiri hluta fyrir því í samfélaginu. Ég skil ekki hvað greinir þetta mál frá öðrum málum sem við ættum þá að fara að henda út í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá erum við hreinlega að tala um grundvallarbreytingu á stjórnkerfinu á Íslandi. Þetta var það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að: Hvað greinir þetta mál frá öllum öðrum málum sem 20–30% þingmanna geta tekið sig saman um og verið sammála um að eigi að henda út í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er bara hans skoðun. Ég er ósammála því.