Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:11]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, væntanlega myndi það vera þannig í mínum bergmálshelli að fólk myndi hvetja til þess að fram færi slík atkvæðagreiðsla. Mínir stuðningsmenn eru í flestum tilfellum á þeirri skoðun að það sé viðfangsefni okkar að takast á við þetta. Hér hefur verið bent á að sú stjórn sem fór í viðræðurnar á sínum tíma hafi ekki haft umboð frá þjóðinni til að fara í þessar viðræður. En núna á ekki að fara og leita eftir umboði. Sá málflutningur skýtur skökku við. Hvort eigum við að fá umboð frá þjóðinni eða ekki? Það hefði verið betra og það hefði styrkt stöðuna ef það hefði verið leitað eftir umboði á sínum tíma. Því miður var það ekki gert. Þá voru ákveðnir aðilar innan Vinstri grænna sem vildu aldrei þetta mál. Þeir vildu það bara ekki, þeir stoppuðu það. Þegar þeir voru komnir í stöðu til þess að stoppa það þá gerðu þeir það. En það er ákveðinn hópur innan Vinstri grænna sem er tilbúinn til þess að fara í svona lýðræðisaðgerð sem þjóðaratkvæðagreiðsla er, það er fullt af góðu fólki innan Vinstri grænna sem er tilbúið til þess. Það voru bara hagsmunaaðilar, m.a. ráðherrar, sem voru ekki tilbúnir til þess að hleypa þessu máli í gegn og því fór sem fór. Það hefði verið betra að fá umboð frá þjóðinni eins og hv. þm. Óli Björn Kárason benti hér á í dag og vonandi berum við gæfu til að afla þessa umboðs.