Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, Finnar og Svíar voru ekki að ganga í Evrópusambandið, þeir gerðu það fyrir löngu, þeir voru að ganga í NATO, vissulega, vegna þess að þeir mátu það eins og fjölmörg ríki, Eystrasaltsríkin, Danmörk, að það væri betra að vera í hvoru tveggja. Þar liggi hagsmunirnir. Að þú getir ekki reitt þig á eina stoð. Hér spurði hv. þingmaður hvort rökin væru núna öryggis- og varnarrök. Nei, en þau hafa vissulega bæst við. Ég varð hrifinn af hugmyndinni um Evrópusambandið löngu áður en ég fór að velta fyrir mér mínum persónulega fjárhag, ég gat bara eytt svona frá mánuði til mánaðar sem einhleypur einstaklingur. En það sem heillaði mig voru þau gildi sem Evrópa stendur fyrir; lýðræði, mannréttindi, frelsi. Númer tvö, lærðist mér svo seinna, var að efnahagslegu rökin skipta gríðarlegu máli. Ég áttaði mig fljótlega á því sem vinnandi maður með nýja fjölskyldu að þessi sveigjanleiki sem hv. þingmaður talar um bitnar fyrst og fremst illa á venjulegu launafólki. Eftir að hafa rekið litla arkitektastofu í 20 ár áður en ég kom hingað þá voru sveiflurnar og kreppurnar í byggingariðnaðinum tvöfaldar á við niðursveifluna annars staðar í álfunni. Og í þriðja lagi eru Íslendingar neyddir til þess að horfa á umheiminn og gera nákvæmlega það sama og Evrópuþjóðirnar eru að gera, Finnar og Svíar, Bandaríkin, Japanir, Kínverjar, Indverjar, að skoða heiminn út frá nýrri heimsmynd. Það sem blasir við auðvitað er breytt staða. (Forseti hringir.) En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist sanngjarnt að vera alltaf að bera saman verðbólguna í einstökum Evrópuríkjum og á Íslandi (Forseti hringir.) án þess að nefna það í samhengi við vaxtastigið og muninn þar á, hvort sú summa komi ekki dálítið illa út í þessum samanburði fyrir okkur og fyrir ungt fólk.