Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi bara byggingariðnaðinn, ekki af því að hann hafi sérstöðu um fram aðrar atvinnugreinar á landinu, bara hvernig sveiflan fer í rauninni með þessar atvinnugreinar. En það eru akkúrat háir vextir sem gera það ómögulegt að byggja ódýrt á Íslandi. Fjármagnskostnaður er dýr og það eru þessar sveiflur á gengi sem gera það líka að verkum að þú þarft kannski að teikna húsið þrisvar, fjórum sinnum vegna þess að það er alltaf verið að skipta um byggingarefni, ýmist á að byggja það innan lands eða flytja inn vöruna. Sveiflur eru vondar fyrir allar atvinnugreinar. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann að því, því að hún talar mikið um EES-samninginn, að núna eru Svíar og Finnar búnir að sækja um í NATO og þá verða Svíar, Finnar og Danir innan bæði NATO og ESB og það hefur hreyft við Norðmönnum. Ég fylgist með umræðunni þar, það er ekki víst að Norðmenn verði hluti af EES-samstarfinu og innan EFTA. Mun það breyta afstöðu hv. þingmanns til Evrópusambandsins?