Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann segist hafa nefnt byggingariðnaðinn bara sem dæmi, það sé almennt mikil sveifla. Jú, það eru vissulega sveiflur í íslensku atvinnulífi en byggingariðnaðurinn er dæmi um iðnað á Íslandi sem fer í ótrúlega miklar sveiflur og mun meiri sveiflur en aðrar atvinnugreinar. (LE: Vextir og gengi.) Það getur vel verið að vextir hafi þar áhrif, en það er eitthvað annað líka, hv. þingmaður. Þegar við horfum t.d. á þróun húsnæðisverðs og yfirleitt á þróunina hér á höfuðborgarsvæðinu þá getum við alveg séð sömu þróun í höfuðborgum t.d. hinna Norðurlandanna. Við sjáum að íbúðaverð t.d. í Kaupmannahöfn er að falla í verði. Það hefur verið mikill vöxtur og nú er verð á mikilli niðurleið. Þannig að ég held að það sé ekki svo einföld skýring. En hv. þingmaður spyr: Hvað með umræðuna í Noregi? Ég sagði áðan að ég hefði tröllatrú á EES-samningnum. Auðvitað er Noregur stór hluti af því að samningurinn er til staðar þannig að ég skal alveg viðurkenna, og ég held að við eigum alltaf að fara í kalt hagsmunamat, að ef Noregur myndi taka þá ákvörðun núna í þriðja skiptið að leggja fyrir norsku þjóðina að ganga í Evrópusambandið, því að Norðmenn hafa þegar tvisvar sinnum sagt nei við því, ef þeim myndi allt í einu snúast hugur núna og vilja gera það, þá getur vel verið að það myndi hafa áhrif á EES-samninginn. Það myndi þar af leiðandi hafa þau áhrif að við þyrftum að taka aftur upp það hagsmunamat sem hingað til hefur farið fram í mínum huga og hjá fleirum sem segja að EES-samningurinn sé okkar besta leið í utanríkisviðskiptum og utanríkissamstarfi.