Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. „Þetta var eitt af táknum fullveldisins sem við vildum ekki láta hjá líða að notfæra okkur til að sýna út á við að við værum orðin sjálfstætt ríki.“ Hver skrifaði þannig árið 1929 um skandinavíska myntbandalagið? Jú, það var Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann leit á það sem sérstakt tákn um nýfengið fullveldi Íslands að landið myndi deila valdheimildum með samstarfsþjóðum og það meira að segja í peningamálum. Þetta er svolítið skemmtilegt.

Eftir seinni heimsstyrjöld hefur orðið sú þróun í mörgum Evrópuríkjum að ríki setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu. Hér á Íslandi hefur þetta ekki verið gert og þess vegna gerist það með reglulegu millibili á nokkurra ára fresti að það vaknar mikill stjórnskipulegur vafi um hvort mikilvæg skref í EES-samstarfinu samrýmist stjórnarskránni okkar. Höfum í huga að hér er verið að tala um alþjóðasamstarf sem byggist á mikilvægasta viðskiptasamningi Íslands frá upphafi. Ég heyri að hv. þingmaður viðurkennir mikilvægi EES-samningsins, talar um hann sem lífæð atvinnulífs á Íslandi og segist hafa tröllatrú á EES-samningnum. Þess vegna þætti mér forvitnilegt að heyra hvort hv. þingmaður styðji að það verði gerðar stjórnarskrárbreytingar til að styrkja grundvöll EES-samstarfsins, svo sem með skýru ákvæði um afmarkað framsal fullveldis í þágu alþjóðasamvinnu.