Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er eiginlega þess fullviss að það eru fleiri þingmenn að hlusta á þessa umræðu þó að þeir séu ekki akkúrat í þessum sal á þessum tímapunkti. Mig langar til að staldra aðeins við það sem hv. þingmaður sagði, eitthvað á þessa leið: Hvernig fóruð þið að? Það hefði verið spurt að því þegar Ísland var tiltölulega fljótt upp úr þeim öldudal sem við fórum í í hruninu. Ég er þeirrar skoðunar að ef við hefðum verið í Evrópusambandinu á þessum tíma þá hefðum við aldrei lent í þessum öldudal. Ég hef alveg skýringu á því af hverju við náðum þessum árangri svona fljótt. Það var vegna þess að við tókum kaupmátt af fólki. Stærstur hluti eða upp undir 50% af kaupmætti launafólks í landinu hvarf út um gluggann með gengisfellingu. Þannig fórum við að. Það eru nú öll afrekin sem við unnum í hruninu, að fella gengið eins og við höfum alltaf gert í gegnum tíðina, fella gengið til að taka kaupmátt af fólki, taka þær launabreytingar sem hafa áunnist í burtu. Staðan er í raun og veru þannig núna að við erum kannski búin að ná þeim kaupmætti sem var fyrir hrun. Þannig er bara staðan. Loksins hefur verkalýðshreyfingunni tekist að ná þeim kaupmætti sem var til staðar fyrir hrun en það hefur þýtt mikla baráttu og marga kjarasamninga. Þetta eru nú öll afrekin. En eins og hv. þingmaður lýsti þessu þá var eins og við hefðum bara fengið sérstök verðlaun fyrir að hafa staðið okkur svona vel. Ég fór til Svíþjóðar eftir hrun. Þar sátu Svíar og drukku bjór og keyptu sér pítsur. Ég var bara eins og staurblankur gaur af því að allt kostaði svo mikið. Á lestarstöðvunum, í gjaldeyrisjoppunum var búið að strika yfir íslensku krónuna.