Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að halda því fram að það skipti máli hver stjórnar og ástæðan fyrir því að okkur vegni svo vel sé einmitt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd. Að þakka verkalýðshreyfingunni, það er örugglega eitthvað til í því og það er okkur öllum að þakka, íslensku þjóðinni, hversu hratt við náðum okkur eftir bankahrun. Það er vegna þess að það er ákveðinn dugur í íslensku þjóðinni, við unnum þetta áfram og við unnum þetta saman. En það er líka vegna þess að regluverkið var með þeim hætti að fólki var gefið tækifæri til þess. Það er grunnstefna okkar sjálfstæðismanna að hið opinbera haldi sig svolítið frá, búi til öflugar grunnreglur sem eru skýrar og einfaldar og leyfi svo fólkinu að búa til verðmætin og búa sér til sinn kaupmátt. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn gengur út á og gengur fyrir og er helsta stefnumál hans.

Hv. þingmaður spyr: Væri ekki ástæða til að lækka verðbólgu, lækka vexti og auka stöðugleika? Jú, og hvað hefur einmitt verið að raungerast á síðustu árum? Nákvæmlega þetta. Við höfum náð gríðarlegum árangri í hagstjórninni og hér fyrir svolitlu síðan voru vextir með því lægsta sem hefur nokkurn tíma þekkst og verðbólgan. En hvað er að gerast núna? Jú, við erum að koma upp úr Covid og við erum í stríði. (Forseti hringir.) Þetta eru utanaðkomandi aðstæður sem íslenska ríkisstjórnin eða við hér inni getum ekki stýrt, en við erum að reyna að bregðast við og (Forseti hringir.) það er m.a. það sem við erum að gera í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum hér líka þessa dagana.