Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ágæta ræðu, prýðisgóða ræðu. Hún var ekki jafn þrungin ástríðu í garð inngöngu í Evrópusambandið og sumar ræður hafa verið hér og þaðan af síður þrungin ótta við þá sömu inngöngu sem hefur líka verið innblástur að ræðum hér, heldur laut meira að þjóðaratkvæðagreiðsluþætti málsins. Það er nefnilega ágætt að skerpa svolítið á því að málið lýtur að því að þjóðin fái tækifæri til að greiða atkvæði. Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum að það er það sem meiri hluti þjóðarinnar vill, fá að segja afstöðu sína í þessu máli. Mig langaði svolítið að nota tækifærið hér þegar þingmaður Pírata kemur upp og ræðir þessi mál vegna þess að það er flokkurinn sem helst hefur talað um hversu jákvætt og mikilvægt er að spyrja þjóðina álits í ákveðnum málum. Síðan þegar ég hef hlustað á ræður af hlaðborði þessarar óttablöndnu umræðu sem verið er að leggja á borðið, um hættuna af Evrópusambandinu fyrir Ísland, þá er eitt af því sem þar er tínt til að það sé ekki hægt að bera þetta undir þjóðina og hún hafi engan áhuga á því og vilji það ekki og að hún hafi ekkert vit á þessu og þetta bara gangi ekki upp, svo ég súmmeri það svolítið upp. Þá langar mig að byrja á að spyrja hv. þingmann: Sér þingmaðurinn eitthvað því til fyrirstöðu? Er íslensk þjóð of illa upplýst til að ráða við svona stóra spurningu? Er einhver gildra þarna? Erum við ekki með almenning sem ræður við (Forseti hringir.) að meta upplýsingar, afla sér þeirra? Ráða stjórnvöld ekki við það að leggja þetta á borðið? Er stjórnsýslan okkar ekki nægilega sterk til þess? Er eitthvað í íslensku þjóðfélagi (Forseti hringir.) sem segir: Nei, við ráðum ekki við þjóðaratkvæðagreiðsluna?