Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Fyrir mér er spurningin sem verið er spyrja þjóðina frekar einföld og hún er: Viljum við taka upplýsta ákvörðun um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið, vita hvað það þýðir að ganga í Evrópusambandið? Þetta er ekki flókin spurning. Sumir hafa nefnt að það hafi nú kannski verið einhverjar alþingiskosningar sem hafi þegar gert út um þetta. Mér vitanlega var ekki árið 2021 aðalspurningin hvort það ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki og fólk kýs flokka og þingmenn og annað út frá mörgum mismunandi atriðum, ekki bara hvort viðkomandi elskar Evrópusambandið eða ekki. Fyrir mér er alls ekkert vandamál að spyrja þjóðina. Svo vil ég bara segja líka við þá þingmenn sem eru hræddir við að spyrja þjóðina: Ímyndið ykkur ef þið hafið rétt fyrir ykkur og þjóðin vill þetta ekki, þá þýðir ekkert fyrir alla þá sem elska Evrópusambandið að tala um Evrópusambandið næstu 20 árin. Við gætum gert heilmikið meira á Alþingi.