Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu í þessari mjög svo þörfu umræðu sem er hér. Það er sérstakt fagnaðarefni að á Alþingi Íslendinga sé verið að ræða jafn stórt og mikilvægt hagsmunamál fyrir allan almenning á Íslandi eins og það hvort ganga eigi í Evrópusambandið eða ekki. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það að hvert ríki væri í hagsmunagæslu fyrir sig sjálft innan Evrópusambandsins og það er vel. Það er bæði verið að hugsa um hvert ríki fyrir sig en auðvitað líka heildarhagsmuni eins og loftslagsmál sem eru grundvallarhagsmunir, ekki bara álfunnar heldur alls heimsins, allrar jarðarinnar. Þar hefur Evrópusambandið verið mjög leiðandi og við getum fagnað því hversu mjög leiðandi Evrópusambandið hefur verið af því að við erum að reyna að elta þau í því. Ég held að ef maður vill horfa aðeins þrengra og horfa á okkar samfélag hérna þá ættum við kannski á þessum tímapunkti að hugsa um hagsmuni íslensks almennings sem er orðinn samdauna gegndarlausri sveiflu íslensku krónunnar síðustu 100 ár. Það er algjör rússíbani að kaupa sér fasteign á Íslandi eða fjárfesta í einhverju stærra og meira en klæðum frá degi til dags og mat. Það eru svakalegar sveiflur og kostnaðurinn við íslensku krónuna er slíkur að við hljótum að hugleiða a.m.k. hvort að við eigum ekki að lina þá áþján sem hefur verið á íslenskum almenningi um langt skeið.