Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að benda á að flestir af þeim gestum sem koma til okkar nota ýmist pund eða dollara, ekki evru. Ég ætla ekkert að útiloka að einhverjar sveiflur gætu dregist saman ef við tengjum íslensku krónuna við annan gjaldmiðil eða tökum upp einhvern annan gjaldmiðil. Við þurfum bara að horfa á heildarhagsmunina. Gjaldmiðill er oftast bara mælikvarði á það hvernig efnahagsmálin í hverju landi fyrir sig ganga og um það eru ábyrg ríkisfjármál, hver neysla almennings er og ábyrgð og svo seðlabankinn, hvernig þetta gangi og þessar sveiflur, gjaldmiðill er mælikvarði á það. En oft er krónan visst mótvægi líka við það sem er að gerast. Hér er talað um ferðamennina. Ef það koma of mikið af ferðamönnum þá styrkist krónan vissulega og þá virkar hún kannski sem viss aðgangsstýring þannig að hingað komi ekki of margir ferðamenn. Þá er sem sagt gjaldmiðillinn að mæta því sem er að gerast í samfélagi okkar. Þetta gerist ekki ef við erum örríki undir einhverri miklu stærri mynt, þá breytist gjaldmiðillinn ekki miðað við það sem er að gerast innan lands. Ég held að það gæti orðið til þess að atvinnuleysi hér yrði meira og það gætu orðið sveiflur annars staðar, þannig að með því að taka upp aðra mynt þá er kannski hægt að draga úr sveiflum á einum stað og auka þær á öðrum.