Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna og þakka sömuleiðis fyrir umræðuna hér í dag. Hún hefur verið bara nokkuð góð, ákaflega fyrirsjáanleg á köflum, enda er þetta auðvitað mál sem búið er að ræða í íslensku samfélagi í áratugi. En þetta er eitt af þessum eilífðarmálum sem aldrei er hægt að klára: Það er ekki rétti tíminn til þess, það er ekki rétta stemningin í samfélaginu, það eru ekki réttu flokkarnir við völd. Það er ekki rétti tíminn til að spyrja þjóðina á neinum tímapunkti, virðist vera, eða að klára málið í eitt skipti fyrir öll. En í grunninn er þetta ekkert flókið. Í grunninn snýst þetta um það að íslenska þjóðin fái sjálf að hafa eitthvað um það að segja hvernig hún vill tryggja sína hagsmuni til lengri tíma í alþjóðlegu samstarfi. Þetta er spurning sem íbúar Evrópu hafa fengið að svara, hundruð milljóna í gegnum tíðina. Sumir hafa sagt: Nei, ég vil ekki fara þarna inn. Það eru dæmi um það, meira að segja í tvígang í sumum ríkjum, á meðan önnur ríki hafa farið aðra leið. En það sem ég vildi nefna í framhaldi af ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar er að hann gerði athugasemd við orðalagið í þessari tillögu til þingsályktunar. Hann fór í gegnum það að það væri eitthvað skrýtið að tala um að taka upp þráðinn í viðræðunum við Evrópusambandið vegna þess að það hafi svo rosalega margt staðið út af þegar Jóhönnustjórnin hætti á sínum tíma. Það var Alþingi Íslendinga sem hóf viðræðurnar. Það er enginn nema Alþingi Íslendinga sem getur ákveðið framhaldið og eftir atvikum þjóðin. Það er ekki þannig að einhverjir tveir eða þrír ráðherrar í ríkisstjórn eða jafnvel heil ríkisstjórn geti án samráðs við þing ákveðið að gera ekki neitt meira með samþykktir þingsins frá því áður.

Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann ekki svolítið hressilega að kippa úr sambandi þeirri staðreynd að þingið hafði aðkomu að því á sínum tíma að farið var í þessa vegferð? En þingið hefur hins vegar aldrei verið spurt um það hvort það ætti að slíta viðræðum, draga það til baka. Það var bara gert með SMS í skjóli nætur á sínum tíma eins og við þekkjum og voru nú ekki gáfuleg vinnubrögð.