Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:10]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er einfalt: Ég ætla að segja nei af því að ég held að tíma okkar og fjármunum sé betur varið í önnur mál. Ég held að það séu stærri mál og mikilvægari mál sem jafnvel ættu heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held bara að þetta sé ekki tíminn til þess. Eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum í dag þá held ég að tíminn til að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið sé ekki í miðjum stríðsátökum í Evrópu. (LE: … Evrópusambandið í stríðsátökum?) Ja, Evrópusambandið er að vígbúast, eins og ég sagði áðan. Evrópusambandið er ekki í stríðsátökunum en í Evrópusambandinu eru, eins og margoft hefur verið bent á, t.d. af hv. þm. Loga Einarssyni, ríki með landamæri að bæði Rússlandi og Úkraínu. Evrópusambandið er mjög upptekið af þessu stríði og eðlilega. Eðlilega er öll heimsbyggðin upptekin af þessu stríði, að fylgjast með þróun þess, að biðja fyrir lokum þess. Auðvitað er það þannig. Þess vegna er þetta einfaldlega ekki tíminn til að fara í aðildarviðræður. Það eru bara stærri mál sem skipta máli.