Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir ræðuna. Það hefur kannski verið rauður þráður hér hjá mörgum þingmönnum sem tala gegn þessari tillögu að koma ekki með hin efnislegu rök fyrir því að það sé ekki endilega gott að vera í Evrópusambandinu heldur fara menn að tína eitthvað annað til. En ég vil gera athugasemd við þá útleggingu að núna sé ekki rétti tíminn. Rétti tíminn hefur náttúrlega aldrei verið. Það hefur alltaf verið viðhorfið, þetta er ekki rétti tíminn. En svo var tínt til að það væri svo margt annað sem við værum að sýsla við í íslensku samfélagi, mörg önnur mikilvæg mál sem bíða okkar. Hvenær er það ekki? Hvenær er það ekki svo að íslensk ríkisstjórn á hverjum tíma er að fást við mikilvæg mál? Allar ríkisstjórnir, allar, alltaf, í fortíð og framtíð er á hverjum tíma að reyna að bæta lífskjör, eru á hverjum tíma að reyna að efla húsnæðiskerfið, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið. Það eru alltaf mikilvæg og góð málefni. Samt sem áður hafa 27 ríki í Evrópu, sem svo sannarlega hafa verið að berjast fyrir sínum innri málum líka, ákveðið að fara þá leið að leyfa þjóðinni að velja hvort fara ætti inn í þetta samband. Mér finnst þetta satt best að segja, og ég átti eiginlega ekki von á því frá hv. þingmanni, vera sama nauðhyggjan og kemur stundum upp þegar við erum að tala um flóttamennina. Við getum ekki hjálpað flóttamönnum af því að við þurfum að hjálpa eldra fólkinu okkar, þurfum að hjálpa öryrkjum og eldri borgurum. Gerum bara bæði. Sinnum velferðarkerfinu okkar, sinnum heilbrigðiskerfinu, sinnum öllum þessum málum en sækjum líka um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að það færir okkur mögulega betri lífskjör, sem er það sem við stefnum öll að. Ég ætla að fá að spyrja hv. þingmann, bæði í gamni og alvöru, hvort það væri þá ekki bara ráð, úr því að það er svona rosalega mikið álag á ríkisstjórninni að hún hreinlega komist ekki í þetta fyrir önnum við annað, að draga til baka einhvern slatta af þessum málum sem eru á þingmálaskránni. Þau eru nú ekki svo burðug hvort eð er, mörg hver.