Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða tillögu til þingsályktunar frá Flokki fólksins, og allur flokkur fólksins er á þessari þingsályktunartillögu, um skattleysi launatekna undir 400.000 kr. og 400.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega skerðingarlaust. Breytingin skilar því auknum ráðstöfunartekjum til tekjulægri hópa en eykur skattbyrði hinna tekjuhæstu.

Í þingsályktunartillögunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í september 2018 kom út skýrslan Jöfnuður í skattkerfinu sem unnin var fyrir þingflokk Flokks fólksins. Í skýrslunni er að finna útreikning á kostnaði ríkissjóðs af því að hækka skattleysismörk upp í 300.000 kr. á mánuði og taka upp fallandi persónuafslátt. Miðað var við að persónuafsláttur félli niður við 970.000 kr. mánaðartekjur og að vendipunktur miðað við þáverandi fjárhæð persónuafsláttar yrði við 562.000 kr. Niðurstaða skýrslunnar var sú að með breytingunni myndu tekjur ríkis og sveitarfélaga lækka um 32 milljarða kr. Tillaga þessi leggur til hærri skattleysismörk en þau sem fjallað er um í skýrslunni, en það er gert með tilliti til launa- og verðlagsþróunar. Hækkun skattleysismarka úr 300.000 kr. í 400.000 kr. líkt og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu kemur til með að auka þetta tekjutap eitthvað. Hins vegar má gera ráð fyrir því að launa- og verðlagsþróun vegi hér á móti enda hefur skattstofninn aukist frá tíma skýrslunnar.“

Ef við horfum á þessar tölur erum við ekki að taka að tala um neinar rosalegar upphæðir, 400.000 kr. er ekki há upphæð. En hvað er ríkisstjórnin að gera? Hún er að leika sér að persónuafslætti. Hún er að lækka persónuafsláttinn með vinstri hendinni en svo koma hækkanir með þeirri hægri, eins og við höfum séð. Það er eiginlega stórfurðulegt þegar við skoðum síðustu skattalækkun að á sama tíma voru þeir að krukka í persónuafslættinum og létu hann ekki einu sinni fylgja verðlagi eða launaþróun. Þetta mál hefur áður farið fyrir þingið og í velferðarnefnd og þar komu fram umsagnir gesta og það tóku allir undir að það þyrfti að hækka þá sem eru á örorku og ellilífeyri og fylgja launaþróuninni. Staðreyndin er sú að kjör örorkulífeyrisþega ná ekki á nokkurn hátt að fylgja launaþróun sem hefur leitt af sér mikla kjaragliðnun. Þá geta lífeyrisþegar ekki nýtt sér sömu úrræði og launþegar, eins og verkfallsrétt. Auðvitað kemur alltaf upp að það myndi kosta einhverja milljarða ef þetta yrði gert, að 400.000 kr. tekjur yrði skatta- og skerðingarlausar sem er engin ofrausn. Það vita allir að það er engin ofrausn, langt frá því. Það myndi hreinlega gera það að verkum að flestir gætu nokkurn veginn lifað eðlilegu lífi. Það er nú ekki meira en það. En það furðulegasta við þetta er að sagt er að þetta kosti svo mikið, að þetta sé alveg óframkvæmanlegt, að þetta sé svo dýrt, Heyrðu, þetta kostar milljarða. Þegar milljónastjórarnir fengu sína hækkun á mánuði var enginn sem öskraði: Þetta kostar of mikið, þetta kostar milljarða. Nei, það er ekki sama Jón og séra Jón.

Förum aftur í tímann, til ársins 1988. Þá var staðan sú að lífeyrislaun voru skattlaus. Þau voru ekki bara skattlaus heldur dugði persónuafsláttur vel fyrir þeim og einnig var afgangur upp á 20–30% upp í lífeyrisgreiðslur eða aðrar tekjur. Það sýnir okkur svart á hvítu hvernig skattkerfið hefur farið með þá sem verst hafa það og einnig að þeir sem minnst hafa eiga að borga skatt sem því miður hækkar og hækkar með hverju árinu sem líður. Á sama tíma borga þeir sem græða milljarða króna bara 22% fjármagnstekjuskatt og ekki krónu í útsvar, hvað þá 65% skerðingar eins og þeir sem eru á örorkulífeyri þurfa að borga af fjármagnstekjum sínum. Ef settar eru fram ákveðnar tölur sem eru ekki bara undir fátæktarmörkum heldur komnar að sárafátæktarmörkum og þær tekjur skattlagðar líka eru hlutirnir komnir í fáránlegan farveg. Það er eiginlega ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi gagnvart þeim sem síst skyldi. Þessum ótrúlegu brellum hefur fjórflokkurinn beitt. Lífeyrisþegar og aðrir væru í ágætismálum ef þeir væru á sama stað í dag og þeir voru 1988. Við getum rétt ímyndað okkur stöðu fólks þarna úti í dag ef það væri skattlaus lífeyrir og auk þess hefði fólk 30% upp í aðrar tekjur, svo sem lífeyrissjóðstekjur. En síðan er þetta sett í fleiri búninga; krónu á móti krónu skerðingar, sem eru að vísu búnar að færast niður í 65 aura á móti krónu, og alls konar skerðingar í kerfinu og keðjuverkandi skerðingar takmarkast ekki einu sinni við ríkiskerfið heldur hlaupa þær yfir í félagsbótakerfi sveitarfélaga.

Það er merkilegt við skattleysið sem var 1988 að það eru margir farnir að sjá það og uppgötva núna. Það kom síðast fram í þættinum Sprengisandi síðasta sunnudag að Sósíalistaflokkurinn væri búinn að uppgötva þetta og hinn stigfallandi persónuafslátt virðist Sjálfstæðisflokkurinn einnig vera búinn að uppgötva.

Með því sem við erum að leggja fram núna munu þessar 4.00.000 kr. nokkurn veginn koma þessum tölum til nútímans. Við erum með alveg stórfurðulegt kerfi. Öryrkjar eru með 300.000 kr. og eftir skatta eru þeir lægstu bara með 260.000 kr. Ellilífeyrisþegi er með 287.000 kr. og 250.000 kr. eftir skatta en þeir allra verst settu eru með 10% lægra en þetta vegna búsetuskerðinga, sem er auðvitað ömurlegt fjárhagslegt ofbeldi. Til að kóróna þetta fjárhagslega ofbeldi er króna á móti krónu sett aftur á og það eingöngu og sérstaklega á versta stadda hópinn, þann sem lifir í búsetuskerðingarkerfinu.

Annað í þessu sem er alltaf verið að benda á er kjaragliðnun milli launafólks og þeirra sem fá lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þarna er sennilega um að ræða um og yfir 50% kjaragliðnun og væru flestir komnir með mun hærri greiðslur ef lífeyrisþegar hjá Tryggingastofnun ríkisins hefðu fengið kjaragliðnunina leiðrétta eins og allir aðrir. Það er búið að leiðrétta hjá öllum en því miður voru aldraðir og öryrkjar í almannatryggingakerfinu skildir eftir. Enn eitt árið í eykst gjáin milli örorkulífeyrs og lágmarkslauna og það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Gleymum því ekki að það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á mánaðarlegan örorkulífeyri almannatrygginga og það vill enginn vera þar á lægstu greiðslunum. Í boði ríkisstjórnar er gert ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokri áfram við skammarleg fátæktarkjör. Hversu lengi á fólk að þurfa að bíða eftir réttlætinu? Það er ekkert launungarmál að á meðan hinn týpíski fjórflokkur er við völd og skiptist eins og undanfarna áratugi þá fær fátækt fólk að bíða og bíða. Það er alveg á hreinu að engar breytingar verða gerðar meðan svo er og meðan við kjósum yfir okkur þá flokka sem vilja viðhalda þessu kerfi óbreyttu. Persónuafslátturinn fylgir aldrei með eins og hann átti að gera með því að láta hann fylgja launaþróun. Hann var skilinn eftir. Þar af leiðandi er hann kolrangur í dag. Ef rétt væri gefið væru skattleysismörk sennilega í kringum 400.000 kr. í dag. Það verður að segjast eins og er að þetta sýnir svart á hvítu hversu stórlega skattheimtan hefur aukist á þá sem síst skyldi. Við megum ekki heldur horfa á þetta allt sem kostnað og kalla það alltaf kostnað ef verið að reyna hjálpa fátæku fólki og koma í veg fyrir að börn lifi í fátækt. Ef hins vegar ríkisforstjórar og ráðherrar eða þingmenn þurfa að fá góðar hækkanir, há laun, talar enginn um kostnað. Það þykir bara mjög sanngjarnt og allt í lagi, það er bara ósköp eðlilegt.

En hver ber ábyrgð? Ríkisstjórn hvers tíma ber fulla ábyrgð á því að sjá til þess að öryrkjar verði ekki fyrir endalausri kjaragliðnun, (Forseti hringir.) skattar séu stórlega hækkaðir hjá þeim og stórauknar keðjuverkandi skerðingar lagðar á þá.