Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[15:52]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg deilt sjónarmiðum hv. þingmanns. Við erum með þannig stjórnsýslu að skipulagið er hjá sveitarfélögunum og þess vegna hefur þessi umfjöllun hér verið fyrst og fremst um þann einstaka þátt á meðan að í umsögnum sveitarfélaganna var svolítið óttast að þetta væri upphafið að einhverju öðru, ef ég kann þessar umsagnir nokkuð rétt. Spurningin er kannski þessi sem hv. þingmaður er að spyrja: Er verið að vega að sjálfstæði sveitarfélaga í skipulagsmálum annars vegar og er einhver hætta á slakara samráði eða kynningu á málinu hins vegar? Það held ég alls ekki varðandi seinni spurninguna, bara alls ekki. Það er bara verið að setja þetta á einn, sameiginlegan stað og svolítið í anda þess sem síðar varð í frumvarpi um mat á umhverfismati framkvæmda og áætlana.

Varðandi sjálfstæði sveitarfélaga í skipulagsmálum þá varðar lagning flutningskerfa raforku auðvitað að stóru leyti almannahag en ekki bara hag einstakra sveitarfélaga og reynslan af fyrirkomulaginu sem við höfum haft, og það þekkir hv. þingmaður, er ekki frábær, það hefur ekki reynst sem best. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram í beinu framhaldi af sárri reynslu af fárviðrinu sem varð í desember 2019. Það vill oft gleymast að sveitarfélögin eru partur af stjórnsýslukerfi alls landsins en ekki bara síns sveitarfélags. Stjórnsýslukerfið á jú að láta allt kerfið í landi okkar ganga upp, þ.e. að almannahagsmunir gangi framar. Ég held að þessi tilraun til að takast á við þetta vandamál með þessum hætti sé alveg verjanleg og hafi ekkert með það að gera (Forseti hringir.) að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum heldur er verið að einfalda ferli sem hefur verið allt of flókið og við höfum lent í ítrekuðum vandræðum með í mörgum tilfellum.