Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það voru nú andsvör við hv. þm. Andrés Inga Jónsson sem drifu mig hérna upp en ég verð að segja að eftir ræðu sessunautar míns, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þá sé ég að við erum bara býsna sammála í þessu þó að við séum kannski ekki sammála í öllu í pólitíkinni. Ég starfaði lengi á vettvangi sveitarstjórna og var formaður skipulagsnefndar í yfir tíu ár og mér finnst skipulagsréttur sveitarfélaga ofboðslega mikilvægur. Sjálfstæði sveitarfélaganna eru líka alveg ofboðslega mikilvægt. Það er aftur á móti þannig að við höfum lent í gríðarlegum vandamálum þegar kemur að þessum risastóru málum okkar. Þess vegna hef ég stundum kastað fram hugmyndinni hvort við ættum að nota landsskipulag. Ég heyrði að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var að tala um svæðisskipulagið sem við þekkjum líka ágætlega, en ég hef lengi velt því fyrir mér hvort í landsskipulagi þurfi bara að vera skrifaðir niður einhverja grunninnviðir, þ.e. þjóðvegur 1 eða helstu þjóðvegir, raflínur og mögulega alþjóðaflugvellir eða innanlandsflugvellir og stærstu hafnir eða þess háttar, það sé bara niðurnjörvað þar. Það yrði örugglega mikið rifist um það þegar verið væri að koma því á, eins og hefð er með svona, en það væri þá bara á einum stað og landið allt undir.

Mig langaði aðeins að segja út frá umræðunni um umhverfismál að þá getum við ekki lengur lokað augunum fyrir því að langstærsta umhverfismálið sem við stöndum frammi fyrir er loftslagsvá. Leiðin út úr því er orkan. Við eigum þessa sjálfbæru grænu orku á Íslandi og þess vegna verðum við að finna leiðir til þess að hún geti verið nýtt um landið allt, okkur öllum í hag og ekki síst loftslagsvánni. Það er stundum eins og við séum of þröngsýn í þessari umræðu því að alls staðar í útlöndum á þessum alþjóðlegu ráðstefnum um loftslagsmál, hvort sem það er um norðurslóðamál eða COP26-ráðstefna eða eitthvað, þá er umræðan alltaf orkan, því að orkan okkar er lykillinn. Umbreyting í orku er lykillinn út úr þessu. Við sitjum hér á ofboðslega mikilli og dýrmætri auðlind sem er græn umhverfisvæn orka. Þess vegna segir í greinargerðinni að athygli stjórnvalda á stöðu dreifikerfisins hafi fyrir alvöru verið vakin í desember 2019 þegar aftakaveður gekk yfir landið. Við munum það sem vorum hér í þessum sal þá og örugglega allir landsmenn hvernig staðan var þegar heilu landshlutarnir voru án rafmagns í langan langan tíma. Það er auðvitað þjóðaröryggismál að slíkt gerist ekki aftur og við verðum að tryggja þessa innviði.

Svo þegar segir líka í greinargerðinni að bent hafi verið á að flókið lagaumhverfi hafi hugsanlega valdið töfum á framkvæmdum í flutningskerfi raforku þá er það ekkert hugsanlega, við getum bara staðfest að það hefur valdið verulegum töfum í uppbyggingu á flutningskerfi raforku. Ef þetta frumvarp hér leysir það þá segi ég bara: Heyr, heyr, styðjum það. Þar sem ég sit ekki í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þá varð ég bara að koma hingað upp og koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég hef svo sem talað undir þessu máli áður, því að eins og sagt hefur verið sagt þá hefur málið verið lagt fram áður. Það er auðvitað hægt að flækja þetta eins og ég er að segja; tölum um landsskipulag og veltum fyrir okkur fleiri þáttum. En ég styð það samt að við bitum fílinn niður og einbeitum okkur að þessu máli núna sem er flutningskerfi raforku, því að það er bara svo ofboðslega mikilvægt. En auðvitað mun sú reynsla okkar nýtast í öðrum málum er tengjast skipulagsmálum.

Þá langar mig að segja út frá skipulagi sveitarfélaganna að sveitarfélögin hafa jú hafa rétt yfir sínu landi en það sem veldur oft mestu vandræðum er nágrannasveitarfélagið með sitt skipulagsvald og þar myndast ágreiningur milli sveitarfélaga. Nú þekki ég það voðalega vel búandi í Mosfellsbæ þar sem Reykjavíkurborg er með urðunarstað við hliðina á okkur og það er auðvitað ekki vilji Mosfellinga og hefur ekkert með skipulagsvald Mosfellinga að gera að þetta sé staðsett þarna. Svona mætti lengi telja. Næsta mál okkar er svo að huga að vindorkunni og hvernig við eigum að vinna með það og hvernig það á að falla að skipulaginu.

Að því sögðu þá þurfum við að hreyfa okkur hratt. Dreifikerfi raforku þarf að vera í lagi því að það er stærsti þátturinn í því að bregðast við loftslagsvánni. En það er líka stærsti þátturinn í að bregðast við aðlögun að þeim loftslagsbreytingum sem hafa orðið og munu verða og raforkukerfið okkar verður að geta staðið af sér ýmis áföll eins og sýndi sig í óveðrinu 2019.