Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hér ræðum við gamlan kunningja, frumvarp sem hefur komið tvisvar sinnum áður fyrir þingið og ekki að ástæðulausu, eins og fram hefur komið. Þetta er afrakstur vinnu sem fór af stað eftir mikið óveður sem gekk yfir norðurhluta landsins í desember 2019 og sýndi fram á veikleika í flutningskerfi raforku, veikleika sem hefði kannski ekki átt að koma mörgum á óvart, það hefði þurft að vera búið að bregðast við miklu fyrr en stundum þarf barnið að detta í brunninn til að brugðist sé við. Þarf endilega að bregðast svona við? Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég ætla ekki að segja þetta sé jafn groddalegt og frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2, sem megnið af þingflokki Sjálfstæðisflokks leggur fram sem forgangsmál, að mér sýnist. Það fær hérna númerið 16 á málaskrá þennan veturinn og hefur verið lagt fram ótal sinnum áður og snýst hreinlega um að valta yfir skipulagsvald sveitarfélaga, andmælarétt almennings, bara alla ferla sem eru varðandi stórar og flóknar framkvæmdir, með lagasetningu frá Alþingi, bara í einni tiltekinni framkvæmd vegna þess að flutningsmönnum sýnist það vera besta leiðin. Ég get alla vega sagt að það er örugglega ekki besta leiðin. Hvort þetta frumvarp hæstv. innanríkisráðherra sé besta leiðin mun umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar vonandi leiða í ljós.

Mig langar að rifja upp þær umsagnir sem komið hafa inn vegna þess að það bendir nú allt til þess að það hefði kannski þurft að endurhugsa þetta mál frá því að það var lagt fram síðustu tvö skipti vegna þess að það er ekki bara að við getum litið til umsagnar Landverndar, sem hefur skiljanlega áhyggjur af því að eðlilegum ferlum sem snúast um að verja sameiginlega hagsmuni okkar allra sé ýtt til hliðar. Og í þágu hverra? Vegna þess að þótt alltaf sé talað um fólkið sem bjó við rafmagnsleysi dögum saman árið 2019 sem ástæðu þá þarf það ekkert endilega að vera viðtakandi raforkunnar sem flutt er með þessum línum. Það gæti alveg eins verið uppbygging á einhverri mengandi stóriðju í einu sveitarfélagi sem kallar á að það þurfi að valta yfir skipulagsrétt sveitarfélaganna sem eru á leiðinni þangað frá virkjuninni. Þess vegna höfum við einmitt ferla sem taka tillit til hagsmuna almennings.

Það var ágætlega fjallað um þetta í umsögn Landverndar sem lagði til að það væri kannski skilyrt. Ef við værum að víkja til hliðar þessum rétti sveitarfélaganna þá þyrfti það að vera, ekki fyrir hvaða raflínuframkvæmd sem er, heldur fyrir framkvæmdir sem er staðfest að skili umtalsverðum umbótum í afhendingaröryggi á raforku fyrir almenna notendur. Almennir notendur nota nefnilega bara 20% af raforku í landinu, en er kannski fólkið — ja, ekkert kannski, almennir notendur eru fólkið sem við eigum að setja í forgang þegar kemur að afhendingaröryggi.

Landvernd bendir líka á að eins og þessu kerfi er stillt upp sé hætt við að aðkoma almennings að ákvarðanatöku verði skert og ég held að við megum ekki við því að fá á okkur frekari álitshnekki hvað varðar framkomu stjórnvalda gagnvart réttindum fólks samkvæmt Árósasamningnum þannig að hér þarf að stíga varlega til jarðar. En svo er líka gott að minna á að þó að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi skilað jákvæðri umsögn á sínum tíma þá var hún ekki einhuga. Stjórn sambandsins klofnaði í afstöðu sinni þannig að tveir fulltrúar í stjórn skiluðu séráliti. Þar var m.a. um að ræða fulltrúa sem var borgarfulltrúi í Reykjavík, og kannski er skiljanlegt að borgarfulltrúi í Reykjavík hafi smá áhyggjur af fordæminu sem mál af þessu tagi getur sett. Við þekkjum nefnilega dálítið mörg dæmi þess að vel meinandi þingmenn leggi fram frumvörp eða tillögur eða tali bara fjálglega um að svipta megi Reykjavíkurborg sérstaklega skipulagsvaldi, hvort sem er í kringum flugvöllinn í Vatnsmýri eða í kringum Kvosina, eins og einhverjir þingmenn vildu gera til að vernda ásýnd Alþingishússins. Reykjavíkurborg hefur áhyggjur en bendir líka á lausnir. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar skilar umsögn vegna þess að heilbrigðiseftirlitið er hokið af reynslu í því að ná sáttum í málum af þessu tagi þar sem það bendir á að hagsmunir vatnsverndar sem ganga þvert á sveitarfélagamörk séu eitthvað sem þau leysi bara með samráði, tali saman, sem er einhvern veginn auðveldara, myndi maður halda, en að lögþvinga einhverja ákveðna tegund af nefnd þar sem ekki er tekið eðlilegt tillit til ólíkra hagsmuna sem sveitarfélögin hafa af þeim framkvæmdum sem um ræðir.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir bara: Þetta er ekki æskileg leið til að stytta málsmeðferð. Við erum með reynslu af annarri leið, við ættum bara að hittast og spjalla, það virkar. Einhverra hluta vegna virkar það síður hjá þeim framkvæmdaraðila sem sér um flutningskerfi raforku. Ég veit ekki hvort lexían eigi endilega að vera að það þurfi að breyta lögum eða breyta starfsháttum kannski frekar, það þyrfti kannski að þjálfa fólk í öðruvísi samræðum til að ná fram nauðsynlegum framkvæmdum.

Síðan fannst mér mjög áhugaverð umsögn sem skilaði sér hér á síðasta þingi. Þá ræddum við nú ekki mikið um þetta mál. Það kom fram seint síðasta vor, rauk í gegnum 1. umr. og til nefndar og til umsagnar og síðan ekki söguna meir. En Rarik skilaði umsögn í lok maí þar sem það tekur náttúrlega undir mikilvægi þess að stjórnsýsluferli sem lúta að uppbyggingu flutningskerfis raforku séu eins skilvirk og kostur er, en tekur einnig undir efasemdir þess efnis að þetta sé leiðin; ef við ætlum að ná markmiði um aukna skilvirkni stjórnsýsluferla þá svari frumvarpið ekki þeirri þörf. Þetta hefur nú ekki verið hlustað á í ráðuneytinu en ég vænti þess að við munum hlusta á þessi sjónarmið í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við þurfum að gæta hagsmuna almennings en ekki einhverra sérhagsmuna varðandi uppbyggingu þessara grunninnviða.

Svo langar mig að nefna hér eitt tengt áhyggjum sem kristallast t.d. í afstöðu fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga á 151. þingi, áhyggjum af því að þetta módel geti orðið skapalón, fordæmisgefandi fyrir aðrar tegundir framkvæmda. Það var nú skemmtilegt að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hafi verið hérna á undan mér í ræðustól, hún var einmitt að nefna hugmyndir sínar um að fella tilteknar tegundir framkvæmda inn í landsskipulagsstefnu, sem er fín pæling, eitthvað sem við ættum að tala um en er kannski stærri umræða en akkúrat þetta afmarkaða mál, nema hvað að hún nefndi þetta líka hér í ræðustól á 151. þingi í andsvari við þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún nefndi að það væri kannski sniðugt að raflínur og aðrar veitur, flugmannvirki og hafnarmannvirki, færu bara undir landsskipulagsstefnu. Í svari sínu benti hæstv. ráðherra á þetta frumvarp hér. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég vil benda á frumvarp mitt um breytingar á skipulagslögum sem liggur fyrir þinginu þar sem verið er að setja málefni raflína í aðeins annað form, þ.e. með sérstakri nefnd sem í sitja fulltrúar viðkomandi sveitarfélaga sem raflínan fer í gegnum og fulltrúi ríkisins, þ.e. Skipulagsstofnunar, sem leiðir þá vinnu. Ég held að það sé kannski ekkert vitlaust að sjá hvernig það gerir sig, verði það frumvarp að lögum, þ.e. að hafa fyrirkomulagið með því móti.“

Þarna fóru dálítið út í veður og vind öll fyrirheit um að þetta væri ekki fordæmisgefandi ákvörðun í þessu frumvarpi vegna þess að það er augljóslega verið að horfa til þess sem fordæmis, sem skapalóns utan um einhverjar aðrar framkvæmdir. Það getum við ekki gert með því að éta fílinn í smærri bitum, eins og það var kallað hér fyrr í dag. Það er bara meiri háttar stefnumarkandi ákvörðun um skipulagsvald sveitarfélaga. Ef það á að fara að skella einhverjum ótilteknum framkvæmdum inn í þetta skapalón á næstu þingum, einhvern tímann, þá á bara að ræða það frekar en að nota sem fyrsta bita af fílnum þá staðreynd að óveður 2019 hafi sýnt fram á augljósa vankanta í flutningskerfinu, nota það sem einhverjar tylliástæðu til að keyra í gegn fyrsta skrefið á einhverri vegferð sem fólk virðist vera búið að hugsa. Eða eins og núna þegar stjórnarflokkarnir, sem fengu 13% og 21% í Sólinni, mati ungra umhverfissinna á loftslags- og umhverfisstefnu flokkanna fyrir ári, fengu verstu mögulegu einkunn, eru allt í einu að tala um að það sé mjög mikilvægt að byggja upp raforkukerfið í þágu grænnar umbyltingar. Þetta er bara tylliástæða líka. Það er verið að nota ástæður sem við getum einhvern veginn öll verið sammála um. Auðvitað viljum við öll að fólk á Norðurlandi búi við öryggi í afhendingu raforku. Auðvitað viljum við öll að raforkuframleiðsla á Íslandi stuðli að grænum umskiptum. Ég held að ekkert okkar sé á móti því. En ef það er notað sem þrýstingur á að koma í gegn grundvallarbreytingum á samskiptum á milli sveitarfélaga þegar kemur að skipulagsvaldi sem þau deila gagnvart framkvæmdum sem fara yfir mörk þeirra, þá er það ekki heiðarlegasta nálgunin til að gera það. Nú ætla ég ekki að slá því föstu að það sé endilega slæm hugmynd að taka einhverjar ótilteknar framkvæmdir og setja í einhverja ákveðna tegund af samráðsmódeli. Þá þarf bara að eiga þá umræðu heiðarlega. Þarna er náttúrlega ekkert okkar að fara að halda því fram að skipulagsvald sveitarfélaga sé eitthvað meitlað í stein. Það er hins vegar skrifað í 78. gr. stjórnarskrár að sveitarfélög ráði sínum málum og við eigum ekki að skerða þann rétt, þann stjórnarskrárvarða rétt, án þess að taka um það opna umræðu frekar en að éta fílinn í litlum bitum og vona að það taki enginn eftir því fyrr en hann er allur uppétinn.