Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:41]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fjallaði hér um heilagleika skipulagsvalds sveitarfélaga sem mér er kært líka. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann varðandi svæðisskipulag sem er svolítið í tísku, strandsvæðisskipulag sem er samkomulag sveitarfélaga. Það er einhver nefnd sem fer af stað og býr til tillögu að strandsvæðisskipulagi sem hvert sveitarfélag þarf náttúrlega að samþykkja fyrir sig og eins með svæðisskipulag. Er það eitthvað á svig við það skipulagsvald sem sveitarfélögin hafa? Þetta fjallar um landnotkun og nýtingu og líka vernd. Þarna er verið að hækka sig upp í um 30.000 fet og horfa niður á svæðið í heild sinni í stað þess að umræðan sé tekin við sveitarstjórnarborð hvers sveitarfélags fyrir sig. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Í frumvarpinu er talað um að lögfest verði heimild til að skipa stjórnsýslunefnd, svokallaða raflínunefnd, með fulltrúum allra þeirra sveitarfélaga sem viðkomandi skipulagsákvörðun nær til. Telur hv. þingmaður að þetta dugi ekki fyrir aðkomu hvers sveitarfélags fyrir sig að slíkri ákvörðun? Við skulum byrja á þessu.