Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að ég hefði talað um heilagleika skipulagsvalds sveitarfélaga. Ég vil bara í fyrsta lagi benda á að ég myndi aldrei tala um heilagleika eins eða neins. Þar að auki sagði ég einmitt að skipulagsvald sveitarfélaga væri ekkert meitlað í stein. Við getum alveg tekið umræðu um að breyta því hvar mörk þess og valds ríkisins liggja. Auðvitað. Þetta eru allt mannanna verk og auðvitað er eðlilegt að skoða hvar þetta liggur. Það sem við þurfum hins vegar að vara okkur á er að leggja hér fram frumvarp sem snýr að einni tegund framkvæmda en vera síðan, eins og hluti stjórnarliða virðist gera, að hugsa um einhverjar aðrar tegundir framkvæmda sem gætu mögulega fallið undir það sama. Hversu langt nær það? Eigum við þá von á því að fá í röðum eftir þessu skapalóni annars konar kerfi utan um stærri framkvæmdir á öðrum sviðum? Ég er bara að segja að ef við ætlum að breyta aðkomu sveitarfélaga að skipulagi með þessum hætti þá væri kannski eðlilegra að taka þá umræðu með öll spilin á borðinu. Ef aðrar veitur, vegir, hafnir eða flugvellir geta mögulega verið framkvæmdir sem passa inn í þetta skapalón að mati stjórnarflokkanna, komið þá með þá umræðu inn í þingsal frekar en að byrja á þessum bita og éta síðan restina af fílnum.