Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[16:58]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Hv. þingmenn. Kæra þjóð. Ég heiti Tómas, ég er alkóhólisti og fíkniefnaneytandi í bata. Ég hef ekki neytt fíkniefna eða áfengis í 42 ár þannig að ég tel mig vera nokkuð kunnugan þessu málefni. Ég er kominn til að spyrja hv. þingmann út í þessa svokölluðu afglæpavæðingu — og ég tek það fram að ég styð hugmyndafræðina um að fíklar þurfi ekki að óttast stöðu sína vegna neyslu sinnar og að þeir lendi ekki í vandræðum þótt þeir þurfi að leita sér hjálpar og aðstoðar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Hugur minn er þar. En ég er að reyna að skilja þetta frumvarp og hvernig það er hugsað. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvaða einstaklingar það eru nákvæmlega sem verið er að hjálpa. Skil ég það rétt að samkvæmt frumvarpinu megi hver sem er vera með svo og svo stóran skammt af fíkniefnum á sér án þess að lenda í vandræðum?