Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að svara þessari spurningu mjög einfaldlega og segja bara já, það ætti ekki að refsa neinum fyrir að vera vímuefni á sér til eigin nota. Það ætti bara ekki að gera það. Það er mjög einföld ástæða fyrir því. Samkvæmt rannsóknum er ekkert samband á milli refsinga og neyslu. Það eitt og sér — segjum sem svo að við myndum ákveða að við ætluðum að hætta að refsa þeim sem eiga við fíknivanda að stríða en halda áfram að refsa öllum hinum sem eru bara að leika sér, eins og hv. þingmaður orðar það. Í fyrsta lagi tel ég það vera ógerlegt. Hver á að skilgreina hver er sjúklingur og hver ekki? Er það einhver aðstoð við að útrýma fordómum að vera komin með einhvers konar, ég veit það ekki, sjúklingaskrá þar sem við eigum ekki að refsa þeim vímuefnanotendum sem eru langt leiddir en öllum hinum er refsað? Það er bara ógerlegt.

Í öðru lagi: Af hverju höldum við áfram að refsa fólki þegar áratugareynsla hefur sýnt okkur að það hefur ekki þau áhrif að stoppa fólk í því að nota vímuefni? Fólk er að nota vímuefni. Neyslan hefur aldrei verið útbreiddari, aldrei. Það sem við gerum með því að hætta að refsa fólki er að við tryggjum öryggi þess á mun betri hátt en við gerum í dag. Það þýðir að fólkið sem er að nota vímuefni treystir á að geta hringt í lögregluna eða hringt á sjúkrabíl til að aðstoða ef eitthvað kemur upp á í staðinn fyrir að það deyi úr ofneyslu vímuefna af því að það þorði enginn í partíinu að hringja á sjúkrabíl því að lögreglan mætir á staðinn og tekur vímuefnin af öllum og sektar og refsar. Það er skaðaminnkun. Hún felst í því. Að refsa virkar ekki. Hættum að gera hluti sem skila ekki árangri.