Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:10]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð. Ég heiti enn þá Tómas, ég er enn þá alkóhólisti og fyrrverandi vímuefnaneytandi. Ég hef verið án vímuefna í 42 ár. Mig langar að ræða þessa hugmyndafræði aðeins nánar. Ég heyrði hv. þingmann segja áðan að hún vilji eftir sem áður að innflutningur, sala og framleiðsla og dreifing fíkniefna sé ólögleg, en samt megi allir vera með þau. Ég skil ekki hvernig þetta gengur upp. Allir þessir sem mega vera með fíkniefni, hvar eiga þeir að fá þau ef þetta er allt ólöglegt? Það er eitt. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, vill lögleiða fíkniefni og ég styð hann í þeirri hugmyndafræði. Það fíkniefni sem er hvað hættulegast af öllu er áfengi og það er löglegt, þannig að það er alveg eins gott að lögleiða þetta allt saman og ná utan um dreifinguna, neysluna og söluna og minnka glæpastarfsemi.

Það sem mig langar til að færa í tal er þetta: Í síðustu viku hitti ég ungan mann sem sat inni í eitt ár fyrir innflutning. Hvað var hann að flytja inn? Jú, hann var að flytja inn 16 kíló af amfetamíni og hann var tekinn. Hvers vegna var hann tekinn? Jú, vegna þess að gæinn sem hann var með hafði fengið sér í nefið áður en þeir fóru út á flugvöll þannig að það var eitthvert duft á töskunum eða eitthvað, þannig að það var augljóst. En hann var búinn að fara fimm eða sex ferðir áður með svipað magn. Fyrir mánuði síðan eða svo voru tekin 100 kíló af kókaíni. Ég var á fundi með fíkniefnalögreglunni og þeir sögðu mér að þeir næðu 7–10% af öllum fíkniefnum sem væru flutt inn. Ímyndið ykkur þetta. Það voru tekin 100 kíló og það þýðir að það er heilt tonn sem þeir náðu ekki í. Ef ég set þetta í samhengi við það að ég er maður í viðskiptum þá ganga viðskipti yfirleitt út á það að maður byrjar að selja eitthvað, svo gengur vel og maður vill selja meira og meira. Nú skulum við taka kókaín sem dæmi. Ef það er búið að afglæpavæða neysluna þá er auðvelt að bjóða hverjum sem er að prufa. Ég flyt efnið inn og neysluskammtur er skilgreindur hugsanlega 5 grömm, ég hef heyrt talað um það. Grammið kostar 18.500 kr. þannig að við erum að tala um 90.000 kr. sölu. Sá sem er að selja er 18 ára gutti sem er rosalega gráðugur og áhugasamur um að selja og græða og hann getur verið með 5 grömm á sér án þess að eiga á hættu að lenda í vandræðum. Hann er enga stund að selja 5 grömm. Hvernig fer hann að því? Hann býður bara næsta manni að prufa og ef næsti maður segir nei, þetta er ólöglegt, þá segir hinn: Nei, þú mátt prufa. Fyrir vikið verður alltaf auðveldara og auðveldara að stækka markaðinn. Það liggur ljóst fyrir að 10–15% af þeim sem byrja að neyta annaðhvort áfengis eða fíkniefna verða fíklar og alkóhólistar. Þannig að með því að stækka markaðinn stöðugt, vegna þess að þeir sem flytja inn vilja selja meira, fjölgar þeim stöðugt sem eiga við vandamál að stríða. Hinir eru bara happí, happí, fyrirgefið orðbragðið, og neyta þess bara svona þegar þeir vilja. Ég hitti fullt af fólki sem er að neyta alls kyns fíkniefna og ég hef ekki enn þá hitt nokkurn mann sem ekki reykir gras af því að það er ólöglegt. Það er bara af því að þá langar ekki í það, hafa prufað það og það gerir ekkert fyrir þá, vilja frekar bjór. En að það sé ólöglegt kemur ekki málinu við. Það lítur enginn á það í dag að gras sé ólöglegt. Það er ekki langt síðan að ég var uppi á Höfða að fá mér að borða á veitingastað sem ég kem nálægt þar og þar voru einhverjir tveir menn sem vinur minn, sem ég var með, þekkti og fór að tala við og hann kom til mín þegar hann var búinn að tala við þá og sagði: Þeir voru að vökva. Hvað þýddi það? Jú, það var íbúð í Grafarvoginum sem var full af plöntum og þeir voru að passa upp á að plönturnar myndu vaxa og dafna svo hægt væri að dreifa þeim.

Það sem ég er að segja við ykkur er þetta: Ég styð hjálp við fíkla. Það er algerlega ljóst. Bara fyrir tveimur vikum síðan var ég að hjálpa fíkli í heróínástandi að komast í meðferð. Ég er alveg inni í þessum heimi, ég hitti í hverri einustu viku tugi ef ekki hundruð manna sem eru nýbúnir að vera í fíkn og hafa margir hverjir setið inni þannig að þetta er algjörlega minn heimur. En ég sé það að með því að afglæpavæða þetta án þess að gera nokkuð meira er verið að bjóða hættunni heim. Þetta er ekki hugsað til enda. Ég vil bara að ferillinn sé augljós, hvað raunverulega er verið að gera. Með þessu mun bara aukast neyslan og aðgengi að fíkniefnum alveg endalaust úti um allt hér á Íslandi.