Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og frásagnir af hans daglega lífi í samskiptum við virka fíkla og óvirka. Það skiptir máli að við deilum reynslu okkar hér í þingi af því við eigum að vera þverskurður samfélagsins og erum með alls konar bakgrunn sem er mjög dýrmætur. Ég staldra aðeins við ræðu hv. þingmanns af því að mér finnst ræðan í rauninni öll hníga að því að það eigi að afglæpavæða vörslu neysluskammta hér á landi. Eins og hv. þingmaður sagði þá virðast fíkniefni flæða hér um landið og það eru engar hömlur á því. Löglegt eða ólöglegt, sagði hv. þingmaður að skipti þá sem neyta engu máli. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Hver er þá munurinn á því ástandi sem nú er og því ástandi sem hér er verið að reyna að tryggja? Við höfum líka heyrt fjölmargar frásagnir virkra fíkla af því að þegar neyðarástand ríkir inni á heimili þar sem einhver hefur t.d. tekið of stóran skammt þá veigrar hópurinn sér stundum við að leita aðstoðar. Þetta hef ég heyrt, bæði í mínum fyrri störfum sem lögmaður og líka fyrir nefndinni. Fólk veigrar sér við að hringja á sjúkrabíl vegna þess að það veit að lögreglan kemur fyrst og þá er það að stunda refsivert athæfi. Telur hv. þingmaður að með því að afglæpavæða neysluskammta gætum við komið í veg fyrir slík stórslys?