Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:18]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Góð spurning, takk fyrir hv. þm. Helga Vala Helgadóttir. Ég sagði áðan að ég styddi þá hugmyndafræði Jóns Steinars að lögleiða fíkniefni. Ég held að það væri besta lausnin. Ég staldra við þessa hugmyndafræði um að afglæpavæða án þess að það sé hugsað til enda. Í umræðunni hefur það verið núna í nokkur ár að fíklar í vanda hafi veigrað sér við að hringja af því að þeir eru svo hræddir við að lenda í vandræðum hjá yfirvaldinu en það held ég að hafi minnkað verulega því það er búið að ræða svo mikið um það. Ég held að fíklar geri sér grein fyrir því í dag að þeir geti alveg óhræddir haft samband við sjúkrabíl eða lögregluna þess vegna, ef það er málið, án þess að lenda í vandræðum. En spurningin var: Tel ég að með því að afglæpavæða þetta myndi það breyta umhverfi þeirra sem eru í verulegum vandræðum? Já, hugsanlega myndi það gera það, en það er bara svo margt annað sem við sjáum ekki. Þetta er mjög þröngur hópur sem við erum að tala um að hjálpa hérna en svo eru allir hinir og þeim mun fjölga, fíklum mun fjölga með aukinni neyslu. Þannig að ég vil bara að þetta sé hugsað dýpra heldur en bara að afglæpavæða einn, tveir og þrír og ráðherra hafi frjálsar heimildir til að búa til alls konar reglugerðir án þess að nokkur hafi vit á þessu.